Yfir 50 jöklar í Dalvíkurbyggð

Yfir 50 jöklar í Dalvíkurbyggð

Þann 16. sept sl.  hélt Skafti Brynjólfsson jarðfræðingur fyrirlestur um jökla í Svarfaðardal á fræðslufundi Náttúrusetursins á Húsabakka fyrir á fjórða tug áhugasamra áheyrenda.  Skafti sem starfar nú sem sérfræðingur á Náttúrustofnun Íslands á Akureyri fjallaði einkum um Búrfells og Teigarjökul en hann hefur stundað rannsóknir á þeim um nokkurt skeið og skrifað m.a. um þá meistaragráðu-ritgerð sína úr jarðfræðideild Háskóla Íslands. 

Sem kunnugt er hljóp Búrfellsjökull á árunum 2001-2003 sem orsakaði m.a. að alveg tók fyrir veiði í Svarfaðardalsá vegna aurs og eðju.  Í erindi Skafta kom m.a. fram að á þessu árabili hljóp jökullinn fram um 150-200 m en hefur á síðustu fjórum árum hopað til baka um 30 metra. Þetta háttarlag svokallaðra framhlaupsjökla er í raun úr takti við  aðra jökla að sögn Skafta og má segja að Búrfellsjökull hafi þarna verið að bregðast við kuldaskeiði áranna á milli 1970 og 1990 þegar hann þykknaði að ofanverðu án þess að sporðurinn færði sig að neinu ráði. Teigarjökull er annar þekktur framhlaupsjökull í Svarfaðardal sem síðast hljóp á áttunda áratugnum en Skafti hefur fundið vegsummerki eftir framhlaup fleiri jökla í dalnum svo líklega eru þeir mun fleiri.

Það kom einnig fram í fyrirlestri Skafta að í sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð eru yfir fimmtíu jöklar sem er líiklega nokkuð hærri tala en menn almennt gera sér grein fyrir . Má vera að Dalvíkurbyggð sé það sveitarfélag landsins sem státar af flestum jöklum þó ekki séu þeir stórir eða sjáanlegir neðan úr byggð.

 
Skafti Brynjólfsson