Skammtímavistun

Þann 29.ágúst 2012 var formlega opnuð skammtímavistun á Dalvík og er hún staðsett í Skógarhólum 23a. Í daglegu tali er skammtímavistunin kölluð Skógarhólar. Fyrstu notendurnir komu í dvöl þann 30 ágúst 2012.

Skammtímavistunin starfar eftir lögum um málefni fatlaðra. Þeir sem eiga rétt á að nýta sér þjónustuna í Skógarhólum eru fatlaðir eintaklingar sem búa í heimahúsum, hvort sem um ræðir börn eða fullorðna. Börn sem eru í fötlunarflokk 1-3 samkvæmt Tryggingarstofnun ríkisins eiga rétt á að nýta sér þjónustuna.

Þjónustunni er ætlað að létta álagi af fjölskyldum, veita fötluðum einstaklingum tilbreytingu og stuðla með þeim hætti að fatlaðir geti búið sem lengst í heimahúsum. Skógarhólar er heimili notendanna þegar þeir dvelja þar og stunda notendur skóla, vinnu, sækja tómstundir og sinna sínum áhugamálum eins og þeir myndu gera þegar þeir eru heima hjá sér. Þeir hitta vini og bjóða þeim í heimsókn í Skógarhóla og ýmislegt er gert til afþreyingar en allt fer það eftir aðstæðum og getu hvers og eins hverju sinni því notendurnir eru ólíkir með ólík áhugasvið og reynt er eftir fremsta megni að gera dvöl þeirra sem ánægjulegasta. Einnig eru Skógarhólar hugsaðir sem undirbúningur fyrir sjálfstæða búsetu og því mikilvægur liður að taka þátt í þeim heimilisstörfum og daglegu amstri heimilisins eins og kostur er.

Nánari upplýsingar veitir Þórhalla Karlsdóttir í síma 460 4900 og á netfanginu tota@dalvikurbyggd.is