Hátíðir

 

Sjómannadagurinn

Sjómannadagurinn í Dalvíkurbyggð er haldinn ár hvert þar sem lauflétt skemmtidagskrá er á hafnarsvæðinu, kappróður, naglaboðhlaup og reiptog oflr. 
Að kvöldi sjómannadags er svo skemmtun í Íþróttamiðstöðinni á Dalvík. Á sunnudeginum er svo árleg sjómannadagsmessa í Dalvíkurkirkju ásamt sjómannadagskaffi sem Slysavarnardeildin Dalvík heldur.  

Svarfdælskur mars

Svarfdælskur mars er menningarhátíð haldin í Dalvíkurbyggð ár hvert í mars. Hátíðin er einkum hugsuð til að lyfta andanum um vorjafndægur og til að minna á og viðhalda menningarlegum sérkennum og skemmtilegheitum sem tíðkast hafa á þessum slóðum. Á hátíðinni er dansaður Svarfdælskur mars, spilaður brús og haldið málþing svo eitthvað sé nefnt.

Draumabláir páskar í Dalvíkurbyggð

Draumabláir páskar í Dalvíkurbyggð er hátíð sem er í ný á nálinni. Hátíðin er hugmynd ferðaþjónustuaðila í Dalvíkurbyggð. Til stóð að halda fyrstu hátíðina um páskana 2020 en þá setti kórónuveiran strik í reikninginn og öll plön voru sett á ís. Hugsunin er að geta boðið upp á dagskrá frá fimmtudegi til sunnudags fyrir gesti Dalvíkurbyggðar. 
Skíðasvæðið opið, gönguskíðaleiðir troðnar, opið í sund og böð, tónleikar og hamingjustundir.
Eitthvað fyrir alla í Dalvíkurbyggð um páskana!