Frá og með haustinu 2016 hafa sveitarfélögin Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð gert samning til þriggja ára um sameiginlegan rekstur tónlistarskóla fyrir bæði sveitarfélögin undir heitinu Tónlistarskólinn á Tröllaskaga.
Samkvæmt samningnum er markmið tónlistarskólans að efla tónlistarþekkingu og iðkun tónlistar, auk þess að stuðla að eflingu tónlistarlífs í aðildarsveitarfélögunum. Þessum markmiðum hyggst skólinn ná meðal annars með því að:
- Annast kennslu í hljóðfæraleik og söng ásamt kennslu í öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í aðalnámskrá tónlistarskóla.
- Bjóða upp á kennslu í sem flestum greinum tónlistar, þar sem börnum jafnt sem fullorðnum gefst kostur á að stunda tónlistarnám eftir því sem aðstæður leyfa.
- Búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu.
- Leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik og hljómsveitarstarfi.
- Búa nemendur undir framhaldsnám í tónlist.
- Styðja kennara skólans til tónleikahalds.
Stefnt er að því að öllum nemendum í 1. – 10. bekk grunnskóla sveitarfélaganna verði gefinn kostur á að stunda tónlistarnám sitt sem hluta af samfelldum skóladegi.
Skólanefnd er skipuð fimm fulltrúum og skiptast þeir á milli sveitarfélaganna Dalvíkurbyggðar og Fjallabyggðar. Skólastjóri skólans er Magnús G. Ólafsson.
Heimasíða skólans er www.tat.is