Atvinnulíf

Dalvíkurbyggð er framsækið og öflugt samfélag í Eyjafirði. Dalvíkurbyggð hefur löngum talist ein af öflugri byggðum landsins þegar kemur að sjávarútvegi. Hluti af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins eru hér með starfsstöðvar. Hér eru því mörg atvinnutækifæri fyrir alla. Atvinnulífið byggir á styrkum stoðum, samgöngur til og frá Dalvíkurbyggðar eru framúrskarandi og því auðvelt að reka hér stór fyrirtæki.

Aðrar atvinugreinar í Dalvíkurbyggð eru landbúnaður, ferðaþjónusta, verslun, ýmis iðnaður og önnur þjónusta. 

Dalvíkurhöfn er stór og umsvifamikil fiski – og vöruhöfn og skapast ýmis störf í kringum hana. Þaðan siglir Grímseyjarferjan Sæfari og heldur Grímsey, nyrstu byggð Íslands, í tengslum við fastalandið. Á Árskógssandi er einnig ferjuhöfn fyrir Hríseyjarferjuna Sævar sem flytur fólk til og frá Hrísey.

Ferðaþjónusta er framsækin atvinnugrein í sveitarfélaginu. Ferðamenn geta valið hér um margvíslega afþreyingu og gistingu hjá ferðaþjónustuaðilum í sveitarfélaginu. Þá ber helst að nefna hvalaskoðun en hvalaskoðun fer fram í öllum þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins og eru starfandi þrjú fyrirtæki sem gera út á hvalaskoðun. Þyrluskíðun hefur verið í miklum vexti í sveitarfélaginu ásamt ferðamönnum sem ferðast hingað til þess að skinna upp fjöll og renna sér niður. 

Atvinnuleysi hefur í gegnum tíðina verið lítið í Dalvíkurbyggð og ungmenni hafa ekki átt erfitt með að finna sér sumarvinnu hér við fiskvinnslu, iðnað eða þjónustu. Vinnuskóli er starfræktur á sumrin og þar geta unglingar fengið vinnu hluta úr sumrinu við hin ýmsu störf þar sem þau læra að vinna og starfa í atvinnulífinu. 

Hér eru líka tækifæri til uppbyggingar í atvinnulífinu og samfélagið hér tekur nýjum tækifærum opnum örmum.