Nýjar opinberar ráðleggingar

24.08.2015

Embætti landlæknis hefur birt nýjar opinberar ráðleggingar um mataræði sem leysir af hólmi eldri bækling. Í endurskoðuðum ráðleggingum er lögð áhersla á mataræðið í heild sinni frekar en einstök næringarefni. Með því að fylgja ráðleggingum um mataræði er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla að góðri heilsu og vellíðan. Næringarráðleggingarnar eru ætlaðar heilbrigðu fólki með það að markmiði að efla heilsu bæði til skamms og langs tíma litið. Þær eru hins vegar ekki sniðnar að þörfum einstaklinga með sjúkdóma eða aðra kvilla sem gætu haft áhrif á þörf fyrir næringarefni. Ráðleggingarnar byggja á norrænum næringarráðleggingum frá árinu 2012 ásamt öðrum rannsóknum á sambandi næringar og heilsu og niðurstöðum kannana um mataræði Íslendinga, bæði barna og fullorðinna. Einnig hefur verið birtur grundvöllur ráðlegginga um mataræði og ráðlagðir dagskammtar næringarefna fyrir fagfólk og getur einnig nýst í kennslu.

Sjá nánar hér: http://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/verkefni/item25765/Radleggingar-um-mataraedi-%E2%80%93-Endurskodun-2015

Bæklinginn má panta hér: http://www.landlaeknir.is/utgefid-efni/panta/item25796/?link_186=25796