Leiðbeiningar um hvernig skal standa að söfnun undirskrifta, sbr. Lýðræðisstefnan og sveitarstjórnarlög
Í lýðræðisstefnu Dalvíkurbyggðar er miðað að því að upplýsa íbúa og virkja þá til þátttöku í málefnum og stefnumótun sveitarfélagsins. Samkvæmt stefnunni geta íbúar kallað eftir íbúafundi um ákveðið málefni eða óskað eftir almennri atkvæðagreiðslu um einstaka mál. Þar kemur fram að:
,,10% af þeim sem kosningarétt hafa í Dalvíkurbyggð geta kallað eftir íbúafundi og skal hann þá haldinn svo fljótt sem unnt er. Ef minnst 25% af þeim sem kosningarétt eiga í Dalvíkurbyggð óska eftir almennri atkvæðagreiðslu er farið með slíka óska skv. 107. og 108. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.“
Til þess að geta kallað eftir íbúafundi eða almennri atkvæðagreiðslu þarf að leggja fram undirskriftarlista með nöfnum íbúa, 10% ef um er að ræða íbúafund og hið minnsta 25% ef um er að ræða almenna atkvæðagreiðslu. Um söfnun undirskrifta gilda ákveðnar reglur.
Undirskriftarlisti vegna íbúafundar (sjá nánar Reglugerð um undirskriftasafnanir vegna óska um borgarafundi samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 154/2013. )
- Aðeins þeir sem hafa kosningarétt í viðkomandi sveitarfélagi eiga rétt á að óska eftir borgarafundi með undirskrift sinni.
- Tilkynna skal sveitarstjórn ef fyrirhugað er að óska eftir borgarafundi með undiskriftum og hver er ábyrgðarmaður/menn undirskriftarlistans. Ábyrgðarmaður/menn eiga að gefa upp nafn, kennitölu og heimilisfang í slíkri tilkynningu.
- Undirskriftum er hægt að safna á pappír sem að sveitarfélag gefur út eða með rafrænum hætti.
- Sé undirskriftum safnað á pappír rita íbúar nafn, dagsetningu undirritunar, kennitölu og lögheimili.
- Á hverju blaði skal gera ráð fyrir sama fjölda undirskrifta.
- Sé undirskriftum safnað rafrænt skal jafnframt gefinn kostur á að safna undirskriftum á pappír.
- Til þess að skrá nafn sitt á undirskriftalista með rafrænum hætti skal hin rafræna framkvæmd vera þannig úr garði gerð að íbúi geti staðfest kennitölu sína og þar með nafn, lögheimili og dagsetningu.
- Í báðum tilvikum skal tilgreina með skýrum hætti tilefni undirskriftasöfnunar og hverjir standi að henni.
- Hver einstaklingur getur einungis skráð nafn sitt einu sinni á undirskriftalista hverrar undirskriftasöfnunar.
- Að undirskriftarsöfnun lokinni skal ábyrgðaraðili afhenda Þjóðskrá Íslands undirskriftarlistana sem staðfestir hvort að hann sé réttmætur.
- Ábyrgðaraðili skal sjá um að yfirfæra pappírslista yfir á rafrænt form og afhenda Þjóðskrá Íslands ásamt frumriti listanna.
- Þjóðskrá Íslands afhendir ábyrgðaraðila niðurstöður undirskriftasöfnunarinnar og undirskriftalista á pdf-formi, rafrænt undirritað.
- Framkvæmdastjóri sveitarfélags eða oddviti tekur við undirskriftum frá ábyrgðaraðila, ásamt staðfestingu Þjóðskrár Íslands, staðfestir móttöku þeirra og að tilskildu hlutfalli íbúa skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hafi verið náð.
- Borgarafund skal halda innan tveggja vikna frá afhendingu undirskriftalista nema sátt verði um annað milli sveitarstjórnar og ábyrgðaraðila.
Undirskriftarlisti vegna almennra atkvæðisgreiðslna um einstök málefni sveitarfélagsins (sjá nánar Reglugerð um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 155/2013. )
- Aðeins þeir sem hafa kosningarétt í viðkomandi sveitarfélagi eiga rétt á að óska almennrar atkvæðagreiðslu um einstök málefni sveitarfélagsins með undirskrift sinni.
- Tilkynna skal sveitarstjórn ef fyrirhugað er að óska eftir almennri atkvæðagreiðslu um tiltekið mál er varðar sveitarfélagið
- Tilkynninguna skulu undirrita að minnsta kosti þrír einstaklingar sem uppfylla skilyrðin hér að ofan. Þeir skulu gefa upp nafn, kennitölu og heimilisfang í slíkri tilkynningu. Einnig skal geta tilefnis undirskriftarsöfnunar og ábyrgðaraðila hennar, en ábyrgðaraðili skal vera einstaklingur, einn eða fleiri.
- Eftir að sveitarstjórn hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða undirskriftasöfnun, þá skal hún innan fjögurra vikna meta hvort ákvæði 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið og tilkynna ábyrgðaraðila um niðurstöðu sína án tafar.
- Sveitarstjórn skal leiðbeina ábyrgðaraðila um orðalag tilkynningarinnar og önnur framkvæmdaratriði eftir því sem þörf er á og veita honum frest til að bæta úr annmörkum, sé tilefni til.
- Telji sveitarstjórn að undirskriftasöfnun samrýmist ekki 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga skal beiðninni hafnað. Unnt er að kæra þá ákvörðun til ráðuneytisins, sbr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga.
- Undirskriftasöfnun má hefja á þeim degi sem ákvörðun sveitarstjórnar er heimilar hana liggur fyrir, þó eigi síðar en innan tveggja vikna. Skal undirskriftasöfnun lokið innan fjögurra vikna frá því að hún hefst.
- Undirskriftum er hægt að safna á pappír sem að sveitarfélag gefur út eða með rafrænum hætti.
- Sé undirskriftum safnað á pappír rita íbúar nafn, dagsetningu undirritunar, kennitölu og lögheimili.
- Á hverju blaði skal gera ráð fyrir sama fjölda undirskrifta.
- Sé undirskriftum safnað rafrænt skal jafnframt gefinn kostur á að safna undirskriftum á pappír.
- Til þess að skrá nafn sitt á undirskriftalista með rafrænum hætti skal hin rafræna framkvæmd vera þannig úr garði gerð að íbúi geti staðfest kennitölu sína og þar með nafn, lögheimili og dagsetningu.
- Í báðum tilvikum skal tilgreina með skýrum hætti upplýsingar um tilefni undirskriftasöfnunar og hverjir standi að henni.
- Hver einstaklingur getur einungis skráð nafn sitt einu sinni á undirskriftalista hverrar undirskriftasöfnunar.
- Að undirskriftarsöfnun lokinni skal ábyrgðaraðili afhenda Þjóðskrá Íslands undirskriftarlistana sem staðfestir hvort að hann sé réttmætur.
- Ábyrgðaraðili skal sjá um að yfirfæra pappírslista yfir á rafrænt form og afhenda Þjóðskrá Íslands ásamt frumriti listanna.
- Þjóðskrá Íslands afhendir ábyrgðaraðila niðurstöður undirskriftasöfnunarinnar og undirskriftalista á pdf-formi, rafrænt undirritað.
- Framkvæmdastjóri sveitarfélags eða oddviti tekur við undirskriftum frá ábyrgðaraðila, ásamt staðfestingu Þjóðskrár Íslands, staðfestir móttöku þeirra og að tilskildu hlutfalli íbúa skv. 108. gr. sveitarstjórnarlaga hafi verið náð.
- Ábyrgðaraðila er heimilt að afla viðbótarundirskrifta til mótvægis þeim nöfnum sem kunna að verða tekin út af listanum þar sem þeir einstaklingar uppfylla ekki ákvæði 1. gr. Skal frestur til þess vera ein vika.
- Verði niðurstaða sveitarstjórnar sú að almenn atkvæðagreiðsla skuli fara fram ber sveitarstjórn að ákveða hvenær atkvæðagreiðslan fer fram og hefja undirbúning hennar, sbr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga.
- Almenna atkvæðagreiðslu skal halda innan árs frá því að slík ósk berst, sbr. 2. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga.
Lýðræðisstefna Dalvíkurbyggðar
Sveitarstjórnarlög nr. 138/2011
Reglugerð um undirskriftasafnanir vegna almennra atkvæðagreiðslna samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 155/2013