Vinabærinn Hamar í heimsókn

Vinabærinn Hamar í heimsókn

Dalvíkurbyggð er í vinabæjarsamstarfi við nokkra vinabæi á Norðurlöndunum og er Hamar i Noregi einn þeirra. Nú á dögunum kom starfsfólk frá bæjarskrifstofunni í Hamar í heimsókn til okkar hérna í Dalvíkurbyggð en þau eru í heimsókn á Íslandi þessa dagana. Starfsfólkið hefur farið um öll Norðurlöndin til að heimasækja vinabæi sína þar og átti bara eftir að koma til Íslands.

 
Þau lögðu af stað frá Reykjavík miðvikudaginn 9. mars og keyrðu sem leið lá í Dalvíkurbyggð þar sem þau gisti á Fosshótel Dalvík. Fimmtudaginn 10. mars fóru þau síðan í skoðunarferðir um sveitarfélagið, fóru í sund og heimsókn í Hvol, á Krílakot og kynntu sér Hitaveitu Dalvíkurbyggðar. Þau fengu kynningu á almennri starfsemi stjórnsýslunnar hérna og heimsóttu einnig fyrirtæki á staðnum. Síðari hluta fimmtudagsins héldu þau síðan suður til Reykjavíkur þar sem markmiðið var m.a. að kynna sér stöðu sveitarfélaga á Íslandi með heimsókn á Samband íslenskra sveitarfélaga og til Lánasjóðs sveitarfélaga. Þeim var einnig boðið á rokktónleika Karlakórs Dalvíkur á föstudagskvöldinu í Salnum í Kópavogi.


Veðrið hefði getað tekið betur á móti þeim þessa daga en þau voru ánægð og sögðu tilbreytingu í rokinu þar sem alltaf snjóaði í logni í Hamar.


Eins og áður sagði er Hamar aðeins einn af vinabæjum Dalvíkurbyggðar en í sumar verður einmitt haldið vinabæjarmót hérna í sveitarfélaginu dagana 30.júní - 3. júlí. Hafinn er undirbúningur mótsins sem verður í samvinnu sveitarfélagsins og Norræna félagsins í Dalvíkurbyggð.