Viltu eignast kind


Snorri Snorrason á Krossum hefur hafið samstarf við Kindur.is.  Á www.kindur.is getur fólk keypt sér sína eigin kind og fylgst með henni vaxa úr grasi bæði í myndum og máli. Hægt er að kaupa eigið fé en þá fær fólk að eiga kindina í eitt ár og lömbin sem hún eignast. Í haust fá eigendur sent kjötið af lömbunum og ullina ef það kýs svo. Einnig er hægt að kaupa fósturfé en þá fær fólk umgengisrétt á kind sína en á ekkert tilkall til afurða. Í báðum tilvikum fær fólk að nefna sína kind og hennar afkvæmi. 

Snorri er með á leigu fjárhús og jörð að Stóru Hámundarstöðum sem er þar næsti bær við Krossa.  Um 300 kindur búa þar á veturna en á sumrin fá þær að leika lausar um Sólarfjall og í Þorvaldsdal. Á Krossum er starfræktur dýragarður með öllum helstu húsdýrunum, þar eru einnig um 100 nautgripir og nokkur hross. Krossar eru staðsettir í Dalvíkurbyggð og eru 35 km frá Akureyri og 8 km frá Dalvík. Nánari upplýsingar er hægt að nálgast á kindur.is. Heimasíða dýragarðsins er www.dyragardurinn.com