Í dag undirrituðu Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir sveitarstjóri og forsvarsmenn Fjörubaðana viljayfirlýsingu um uppbyggingu í ferðaþjónustu á Hauganesi í Dalvíkurbyggð. Undirritunin fór fram í Sandvíkurfjöru á Hauganesi.
Uppbyggingin felst í því að í sandvíkurfjöru verða byggð upp ný og stærri Fjöruböð vestan við núverandi potta þar sem andi þeirra heldur sér með sterkri tengingu við hafið, fjöruna, sjósókn og siglingamenningu. Fjöruböðin eru baðaðstaða fyrir alla þar sem gestir baða sig í pottum sem líkjast bátum fyrri tíða. Pottarnir hafa misheitt hitastig og eru annaðhvort ferskvatns- eða saltvatnspottar. Aðstaðan við Fjöruböðin er hönnuð með tilvísun til eldri verbúða og íslensku burstabæjanna og hefur sex burstir. Þar má finna gufubað alveg niðri í fjöruborðinu með útsýni inn Eyjafjörð, búningsherbergi og sturtur fyrir öll, heilsulind og veitingasvæði þar sem bæði má njóta veitinga innan dyra eða í sérstakri laug með útibar framan við veitingaaðstöðuna. Timburbryggja úr harðvið myndar svo gólfið á milli lauganna og skapar notalegt íverurými fyrir gesti Fjörubaðanna.
Einnig er á planininu að byggja upp frístundarbyggð með 30 bústöðum í þremur mismunandi stærðum, við tvær botngötur ofan við tjaldsvæðið.
Svo er gert ráð fyrir fjörutíu herbergja hóteli sem verður byggt rétt vestan við Fjöruböðin og austan frístundabyggðar. Þar verður veitingasalur fyrir morgunverð og þegar fram í sækir frekari veitingarekstur en fyrst um sinn munu gestir njóta þeirra veitinga sem framreiddar eru á Baccalá Bar og í veitingasölu Fjörubaðanna. Á hótelinu verður hugað að ýmsum þáttum sem varðar þægindi og aðgengi gesta, s.s. fyrir skíði eða golf, og sérstök aðstaða ætluð fyrir þann búnað.
Nýja hverfið byggir á þjónustu við ferðamenn. Frístundahús, hótel, tjaldsvæði og fjöruböðin styrkja hvert annað og mynda verulega sterkan og áhugaverðan áfangastað á Norðurlandi. Stað sem bæði innlendir og erlendi ferðamenn, sem og íbúar Eyjafjarðar munu sækja heim.
Áform eru um að bróðurpartur þess sem á að byggja verði kominn upp árið 2029.
Nánari upplýsingar um fjöruböðin og framtíðarsýn þeirra má finna á www.fjorubodin.is