Vika símenntunar verður 22.-28. september 2008. Markmið viku símenntunar er að auka símenntun í atvinnulífinu og hvetja fólk til að leita sér þekkingar alla ævi. Í viku símenntunar 2008 er lögð áhersla á fræðslu í fyrirtækjum og sem fyrr að ná til þeirra sem hafa litla formlega menntun.
Miðvikudagurinn 24. september er árlegur símenntunardagur í fyrirtækjum og stofnunum. Fyrirtæki eru hvött til að tileinka þann dag fræðslumálum, t.d. með því kynna starfsmönnum fræðslustefnu fyrirtækisins, bjóða upp á námskeið eða fá kynningar frá fræðsluaðilum, stéttarfélögum eða styrktarsjóðum.
Fræðsluaðilar, fyrirtæki, stofnanir, samtök og allir þeir sem koma að símenntun eru hvattir til að nýta sér verkefnið til hvatningar og kynningar á því símenntunarstarfi og starfsþjálfun sem fram fer hér á landi. Jafnframt biðjum við fyrirtæki, félög og stofnanir að senda okkur upplýsingar á tölvupósti um það sem gert er í tilefni af viku símenntunar.
Menntamálaráðuneytið stendur fyrir viku símenntunar en framkvæmd verkefnisins er í nánu samstarfi við símenntunarstöðvarnar níu á landsbyggðinni og Mími-símenntun og Framvegis á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess styrkir Starfsmenntaráð framkvæmd vikunnar. Vika símenntunar er stórt og árvisst verkefni þar sem fjölmargir hagsmunaaðilar eru kallaðir til samstarfs um að vekja athygli á mikilvægi símenntunar og hvetja fólk til að leita sér þekkingar.