Björn Friðþjófsson og Katrín Sigurjónsdóttir klipptu á borðann við vígsluna.
Myndir við frétt: UMFS
Þann 31. ágúst var merkilegur dagur í íþróttamenningu í Dalvíkurbyggð þegar nýr gervigrasvöllur var formlega vígður við hátíðlega athöfn.
Mikill fjöldi fólks var viðstaddur vígsluna og dagskráin var afar fjölbreytt. Fótboltaleikur yngri iðkenda gegn foreldrum/forráðamönnum, hamborgaragrill, heimaleikur D/R gegn Vestra, hátíðarkaffi í hálfleik og svo voru bræðurnir Björgvin og Gunnlaugur Jón Gunnlaugssynir sæmdir gullmerki KSÍ, en þeir eru afar vel að þeim heiðri komnir. Björn Friðþjófsson var síðan sæmdur gullmerki UMSE fyrir starf sitt í þágu íþrótta- og ungmennafélagsmála. Þá fékk Tryggvi Guðmundsson einnig þakklætisvott frá félaginu fyrir sitt gríðarmikla vinnuframlag.
Sveitarstjóri hélt hátíðarræðu af þessu tilefni og hér fyrir neðan má sjá hana í heild sinni auk mynda frá deginum.
Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar, forsvarsmenn Ungmennafélags Svarfdæla, formaður KSÍ og aðrir góðir gestir.
Í dag fögnum við því að vígður er nýr gervigrasvöllur í fullri stærð með allri þeirri bestu tækni sem gerist á slíkum völlum í dag. Þetta er risastórt skref fyrir sveitarfélag af þeirri stærðargráðu sem Dalvíkurbyggð er og hefur mikla þýðingu fyrir byggðarlagið. Með tilkomu gervigrasvallarins, að viðbættri þeirri aðstöðu sem fyrir er til íþróttaiðkunar í sveitarfélaginu, er Dalvíkurbyggð orðin eftirsóttarverðari fyrir barnafjölskyldur sem eru að skoða búsetukosti til framtíðar. Að börnin okkar fái tækifæri til að æfa við bestu aðstæður er ómetanlegt. Auðvitað verða þó nokkrir dagar á ári sem falla út úr iðkun vegna snjóa, það er alveg vitað og það þekkjum við íbúar á Tröllaskaga vel. En lungað úr árinu munu okkar krakkar standa jafnfætis jafnöldrum sínum í hinum vestræna heimi hvað varðar aðstæður til iðkunar. Það er metnaðarfullt og stórkostlegt. Þá eru ótalin not almennings af mannvirkinu til æfinga, göngu og leikja.
Saga baráttu fyrir gervigrasvelli í byggðarlaginu spannar nú nokkur ár. En árið 2017 kom UMFS með tilboð þess efnis að félagið reisti völlinn gegn framkvæmdastyrk frá sveitarfélaginu og þá fór boltinn að rúlla. Á vordögum 2018 samþykkti fyrrverandi sveitarstjórn að Dalvíkurbyggð kæmi að verkefninu með 10 miljón króna hönnunarstyrk og í framhaldinu framkvæmdastyrk upp á 160 miljónir króna. Árið 2018 var nýtt til hönnunar en snemma árs 2019 var gengið frá samningum á milli Dalvíkurbyggðar og UMFS um framkvæmdina ásamt afnotasamningi og rekstraráætlun. Því er skemmst frá að segja að allt hefur gengið eftir áætlun og verndarhendi hefur verið haldið yfir þeim sem unnu að verkinu.
Það er alveg ljóst að við værum ekki stödd á þessum gleðilega tímapunkti ef ekki væri fyrir endalausa þrautseigju fárra einstaklinga sem vita best hvaða þýðingu góð aðstaða hefur fyrir iðkendur íþrótta. Þar fara fremstir forsvarsmenn UMFS og hjá meistaraflokki Dalvíkur/Reynis. Þá hafa sjálfboðaliðar komið að verkinu í ófáar klukkustundir. Og hverjir hafa verið duglegastir að mæta? Jú, afar. Afar sem hafa ýmsa fjöruna sopið í aðstöðu til knattspyrnuiðkunar og m.a. spiluðu sumir þeirra þeir löngum stundum á gamla malarvellinum þar sem Dalvíkurskóli stendur nú. Afar sem hafa tekið þátt í að reisa fleiri velli í byggðarlaginu, bæði á Dalvík og Árskógsströnd. Afar sem hlakka nú til þess að fylgja afkomendum sínum eftir á nýja vellinum.
Þá vil ég einnig nefna Björn Friðþjófsson og hans fórnfýsi og einurð. Björn var til margra ára í forsvari fyrir baráttufólk fyrir tilkomu gervigrasvallar. Ég leyfi mér að fullyrða að án hans framgöngu værum við ekki stödd á þessum gleðilegu tímamótum í dag. Björn hefur verið vakinn og sofinn yfir þessari framkvæmd frá upphafi til enda og haldið utan um alla þræði með miklum sóma. Hann getur í dag ásamt fleirum horft stoltur til baka sem sannur ungmennafélagi og sjálfboðaliði.
Það er von mín að íbúar Dalvíkurbyggðar muni nýta sér hið nýja mannvirki vel. Að hér verði mikið líf allan daginn, æfingar og gleði. Því völlurinn er enn ein rósin í hnappagat íþróttalífs heilsueflandi Dalvíkurbyggðar.
Krakkar, við ykkur vil ég segja. Notið völlinn eins mikið og þið getið því hann er byggður fyrir ykkur og komandi kynslóðir. Umgangist hann af virðingu og munið að hann er byggður í sjálfboðavinnu af ungmennafélögum með framkvæmdastyrk frá Dalvíkurbyggð.
Heillaóskir til Ungmennafélags Svarfdæla og allra íbúa Dalvíkurbyggðar á vígsludegi nýs gervigrasvallar.