Hátíðardagskrá 17. júní var afar vel heppnuð og var mörgum mögulega kærkomin eftir langt Covid tímabil.
Formleg dagskrá hófst klukkan 11.00 með því að 17. júní hlaupið fór fram á íþróttavellinum á Dalvík í umsjón frjálsíþróttadeildar UMFS.
Skráning var á staðnum fyrir hlaup og verðlaunaafhending að hlaupi loknu. Börn og fjölskyldur þeirra fjölmenntu og var veðrið einstaklega fallegt þó það hefði vissulega verið ansi kalt. En sólin skein inn á milli og fyrir það ber að þakka.
Klukkan 12:00 var í boði að fá andlitsmálun í íþróttamiðstöðinni og voru þó nokkur börn sem nýttu sér það. Upp úr kl. 13:00 lagði skrúðganga af stað frá Íþróttamiðstöð með Sævar Frey Ingason og Ragnheiði Rut Friðgeirsdóttur í fararbroddi. Þegar börnin mættu í Berg var þeim boðið upp á nýbakaðan kanilsnúð og kakóbolla frá Böggvisbrauði Café, sem var ljúft í kuldanum.
Hátíðarstundin í Bergi, sem tókst að hafa utandyra að þessu sinni, hófst upp úr 13:45.
Fjallkonan flutti ljóð eftir Lovísu Maríu Sigurgeirsdóttur, sem ber nafnið "Ákall frá móður jörð", Þröstur og Þorsteinn spiluðu og sungu nokkur lög og Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, hélt hátíðarræðu.
Ávaxtakaramellum rigndi yfir börnin af þaki Menningarhússins og Barri Bjartur Ísbjörn sló í gegn hjá börnunum sem gerðu sitt besta til að dansa burtu sykurvímuna af karamellunum.
Leikir og skemmtun voru í boði flokkstjóra Vinnuskóla Dalvíkurbyggðar og starfsmenn og Ungmennaráð grilluðu pylsur ofan í þá sem vildu.
Sveinbjörn Hjörleifsson og aðstoðarmenn hans teymdu hesta undir börnum við Krílakot og heimaleikur Dalvíkur/Reynis gegn liði KFS fór fram á Dalvíkurvelli þar sem heimaliðið okkar bar 2-0 sigur úr býtum!
Milli 70-80 börn mættu í bíó í Víkurröst kl. 16.00 en ákveðið var að halda frekar inniskemmtun þar sem veðurspáin var ekki sérlega hlýleg og mikil útivera búin að vera á börnunum frá 11.00. Börnin fengu svala og partý snuð sleikjó og virtust allir vera í skýjunum með daginn.
Hnátur á leikskólaaldri
Hnokkar á leikskólaaldri
Stelpur 7-8 ára
Strákar 7-8 ára
Ingimar Guðmundsson mætir í mark
Aldursflokkur 30+ hljóp Böggvisstaðahringinn
Systkinin frá Hrafnsstöðum státa greinilega af góðum hlaupagenum
Hópurinn sem hélt utan um 17. júní hlaupið
Þröstur og Þorsteinn skemmtu gestum
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, hélt hátíðarræðu í tilefni dagsins
Fjallkonan 2021 - Glæsilega Kristrún Lilja, dóttir Sveins Torfa og Guðrúnar Önnu
Barri Bjartur ísbjörn sló í gegn, dansaði með börnunum og færði þeim blöðrur
Fjallkona og fylgdarlið, f.v. Jóhanna Skaftadóttir, Kristrún Lilja og Guðrún Anna
Við þökkum kærlega fyrir skemmtilega samveru í dag!
GLEÐILEGA ÞJÓÐHÁTÍÐ