Óhætt er að segja að íbúaþingið sem haldið var í Dalvíkurskóla sl. laugardag hafi tekist vel. Yfirskrift þingsins var ,, Dalvíkurbyggð - fjölbreytileiki, styrkur til framtíðar" og vísaði þeirrar margvíslegu fjölbreytni sem við njótum hér, t.d. varðandi búsetukosti, náttúru og mannlíf. Gert er ráð fyrir því að sá efniviður sem fékkst úr vinnunni á íbúaþinginu verði nýttur til að móta leiðarljós, framtíðarsýn, markmið og stefnuleiðir fyrir nýtt aðalskipulag Dalvíkurbyggðar. Einnig mun bæjarstjórn vinna úr öðrum hugmyndum sem ekki beint varða aðalskipulag.
Um 120 manns mættu á þingið og var þátttaka góð allan daginn. Kvennadeild slysavarnafélagsins Landsbjargar sá um að matreiða ofan í þátttakendur en kaffi og aðrar veitingar voru í boði Sparisjóða Svarfdæla. Segja má að þátttakendur hafi gengið jákvæðir og samhuga af þinginu og sammála um þá möguleika sem sveitarfélagið hefur uppá að bjóða, til að mynda fjölbreytta búsetukosti á Árskógsströnd sem og möguleika á frístundabyggð. Þátttakendur vilja halda í fjölbreytileikann hvað atvinnu varðar og vilja halda í landbúnað og byggja ofan á þá þekkingu sem hér er í sjávarútvegi.
Myndir frá þinginu má finna á myndasíðunni hér til vinstri sem og undir tenglinum íbúaþing.
Fleiri fréttir af íbúaþinginu munu berast inná heimasíðu Dalvíkurbyggðar á næstu dögum. Stutta samantekt má finna hér til vinstri.