Vegurinn upp að Upsum

Vegurinn upp að Upsum

Síðastliðið sumar var lagður nýr vegur upp að Upsum en hann liggur í beinu framhaldi af Böggvisbraut í norður, yfir Brimnesána sem liggur í tveimur stokkum undir veginn.

Með þessum nýja vegi varð aðgengi að Upsakirkju mun betra en staðurinn er sögufrægur og er fyrst getið í Landnámabók en einnig í Svarfdæla sögu. Þar segir að Karl hinn rauði, sonur Þorsteins svörfuðar landnámsmanns hafi búið á Upsum. Við Upsakirkju er að finna upplýsingaskilti með ýmsum fróðlegum upplýsingum um kirkjuna og sögu hennar.

Vegurinn bætti einnig aðgengi að hundasvæðinu en norðan og ofan við Upsir er merkt svæði þar sem lausaganga hunda er leyfð.

Framkvæmdum við veginn er ekki lokið en nú á dögunum var bætt úr öryggi vegfarenda þegar vegrið voru sett á veginn þar sem Brimnesáin liggur undir. Á komandi árum stendur svo til að leggja bundið slitlag á veginn. 

Hundasvæðið norðan við Upsi

Hundasvæðið norðan við Upsi

Upsakirkja

Upsakirkja