Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi hefur nú starfað á þriðja ár. Verkefnum skrifstofunnar hefur fjölgað jafnt og þétt og verða þau sífellt fjölþættari.
Skrifstofan stendur nú fyrir útgáfu á veffréttabréfi sem er sent m.a. til allra ferðaþjónustuaðila og sveitarfélaga á Norðurlandi. Stefnt er að því að fréttabréfið komi út á tveggja mánaða fresti og er það í upphafi unnið í samstarfi við Ferðaþjónustuklasa Norðurlands og hefur kynningarfyrirtækið Athygli umsjón með útgáfunni.
Helsta markmiðið með útgáfu fréttabréfsins er að flytja fréttir af því helsta sem er á döfinni hverju sinni innan ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Vonast er til að með útgáfu bréfsins séu ferðaþjónustuaðilar upplýstari um þau verkefni og viðfangsefni sem unnið er að á Norðurlandi öllu. Með því að auka á þennan hátt upplýsingastreymi á milli ferðaþjónustuaðila er vonast til að samstarf innan greinarinnar eflist enn frekar. Efni blaðsins mun fyrst og fremst birtast í formi greina, viðtala og tilkynninga og leitast verður einnig við að varpa ljósi á helstu verkefni sem unnið er að á vegum Markaðsskrifstofunnar hverju sinni.
Við vonumst til að ferðaþjónustuaðilar séu ánægðir með útgáfu bréfsins og áhugavert væri að fá sendar athugasemdir um bréfið. Þær berist þá til Rósu Aðalsteinsdóttur á Markaðsskrifstofunni (nordurland@nordurland.is.) Einnig er rétt að benda á að allar hugmyndir um efni í næstu bréf eru vel þegnar.
Upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar vill jafnframt koma þeim skilaboðum áleiðis til íbúa Dalvíkurbyggðar að hægt er að nálgast upplýsingafulltrúa, selma@dalvik.is, varðandi viðburðadagatalið á www.dalvik.is og koma upplýsingum um viðburði í sveitarfélaginu á framfæri.
Hér er kjörið tækifæri til að auglýsa viðburði, skemmtanir og aðra afþreyingu sem fer fram í Dalvíkurbyggð.