Veðurspá janúarmánaðar frá Veðurklúbbnum á Dalbæ

Þriðjudaginn 5. janúar 2016 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar á nýju ári. Voru fundarmenn að vonum ánægðir með veðurspár ársins 2015, sem gengu mjög vel eftir.  Nýtt tungl kviknar 10. janúar kl. 01:30 í norðri og er það þorratungl. Gert er ráð fyrir að veðurfar fram yfir miðjan mánuð verði svipað og veður var í desember en þá mun verða breyting til hins verra, meiri sviptingar og stöku rumbur með einhverri snjókomu og vindi. Þessa tifinningu byggjum við á draumum klúbbfélaga og öðru innsæi.


Klúbburinn óskar öllum gleðilegs árs og þakkar athyglina á liðnu ári.

Veðurvísa mánaðarins

Tólf eru synir tímans,
sem tifa fram hjá mér.
Janúar er á undan
með árið í faðmi sér.


Veðurklúbburinn á Dalbæ