Fundur haldinn í Veðurklúbbnum á Dalbæ þann 5. nóvember 2013. Fundurinn hófst kl. 14:00. Til fundar mættu 11 félagar ásamt ungri konu sem er ljósmyndari frá Spáni. Hafði hún mælt sér mót við klúbbfélaga í þeim tilgangi að taka af þeim ljósmyndir.
Farið var yfir októberspána og hún borin saman við veðurfarsögu mánaðarins. Voru fundarmenn nokkuð sáttir við það hvernig spáin gekk eftir. Reyndar var við því að búast miðað við fyrri reynslu.
Birta má brot úr umsögn sem Veðurklúbbnum barst í febrúar 2001, sem er svolátandi:
Kæru veðurklúbbsfélagar!
Fyrir mig sem bónda vestan af fjörðum þykja mér veðurspárnar ykkar ganga með ólíkindum eftir. Allt sem þið hafið sett á prent gagn hvert veðri og annari úrkomu hefur staðist. Ég hef síðan í sumar byggt alla mína ákvörðun fyrst með heyskap og síðan haustvert eftir hvað þið hafið haft til málanna að leggja .......................
Þá var komið að spá fyrir nóvembermánuð. Tungl kviknar þann 3. nóvember kl. 12:50 í suðri. Þennan dag þ.e. 3. nóv. kl. 09:00 logaði himininn af rauðum bjarma sem teygði sig út alla Látraströnd að Gjörum. Tunga teygði sig einnig þvert yfir Svarfaðardal. Þeir sem urðu fyrir þessari sýn telja að þetta sé boði um gott veður í nóvember en þó heldur kaldara en í október. Þessu til viðbótar var sagt frá þremur draumum sem voru gaumgæfðir og skilgreindir þannig að það styður spádóminn um gott veður í nóvember.
Með afmæliskveðjum í tilefni októberbyltingarinnar 7. nóv. 1917
Dalvík 7. nóv. 2013
Veðurklúbburinn á Dalbæ