Veðurklúbburinn á Dalbæ hélt fund þriðjudaginn 1. apríl 2014 kl. 14:00 og voru fundarmenn 11 talsins.
Farið var yfir veðurfar í mars og voru klúbbfélagar sáttir við hvernig spáin hafði gengið eftir. Aprílmánuður kemur til með að verða þokkalegur framan af. Þó muni koma hret seinnipart mánaðar sem flokkað er sem páskahret. Það að farfuglar eru farnir að gera vart við sig bendir til þess að tíð verði í mildara lagi. Lóan er til dæmis komin og fréttir hafa borist af því að heyrst hafi í hrossagauk. Nýtt tungl kviknar þann 29. apríl í A - kl. 06:14 sem er sumartungl. Það að tunglið kviknar á þriðjudegi setur lítillega óvissu í spána. Látum við tímann leiða í ljós merkingu þess að tunglið kviknar á þessum degi.
Með góðri kveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ
P.s. Þó spáin hafi verið gerð þann 1. apríl er hún gerð í fullri alvöru.