Í Bergi menningarhúsi stendur nú yfir myndlistasýning með vatnslitamyndum eftir Garðar Loftsson (d. 31.janúar 1999) en það eru ættingjar hans sem standa fyrir sýningunni. Garðar var mjög afkastamikill listamaður en á sýningunni eru yfir 50 vatnslitamyndir sem spanna allan hans feril. Flest verkin eru landslagsmyndir, sumar málaðar á staðnum.
Myndirnar sýna næmt auga listamannsins fyrir litum og blæbrigðum náttúrunnar en með djörfum strokum vatnslitapensilsins verður hún ljóslifandi fyrir augum okkar. Með vatnslitnum nær hann að fanga einstakar náttúrustemmningar og skapa andrúmsloft sem er engu líkt.
Garðar Loftsson fæddist á Böggvisstöðum í Svarfaðardal 23. september árið 1920. Hann var sonur hjónanna Lofts Baldvinssonar bónda og útgerðarmanns og Guðrúnar Friðfinnsdóttur frá Atlastöðum í Svarfaðardal. Garðar fæddist inn í stóran systkinahóp og var hann 10. í röð 14 systkina. Á sínum uppvaxtarárum hjálpaði hann föður sínum við útgerðina og búskapinn, allt þar til hann fór í
Menntaskólann á Akureyri þaðan sem hann lauk prófi 1940. Fljótlega eftir það hóf hann störf hjá KEA þar sem hann vann fyrst við afgreiðslustörf en svo við auglýsingagerð auk þess að sjá um útstillingar í búðargluggum. Árið 1949 eignaðist Garðar dótturina Hrafnhildi með barnsmóður sinni Erlu Sigurðardóttur frá Akureyri. Árið 1950 eignaðist hann svo tvíbura með seinni barnsmóður sinni Ernu Sigurjónsdóttur frá Svalbarðsströnd. Um hann var sagt að hann væri hlédrægur maður og léti ekki mikið á sér bera. Hann hefði í raun verið einfari en vinur þeirra sem til hans leituðu. Síðustu æviárin bjó Garðar í Reykjavík þar sem hann lést 31. janúar 1999.
Garðar var afar listrænn og prýða mörg málverka hans veggi fjölda stofnana og heimila. Garðar var að mestu sjálfmenntaður í málaralistinni. Mest málaði hann landslagsmyndir með vatnslitum og olíu. Garðar hélt fjölda sýninga á Akureyri og í Reykjavík, bæði einkasýningar og samsýningar. Myndir hans voru vinsælar og seldust víða meðal annars á Norðurlöndunum og í Bandaríkjunum.