Almannavarnir og Veðurstofan vara við ofsaveðri eða fárviðri á landinu síðdegis og í kvöld. Veðrið skellur fyrst á Suðurlandi og er ekki ráðlegt að vera á ferðinni þar eftir klukkan 12 á hádegi. Annars staðar á landinu, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu, er ráðlegt að vera ekki á ferðinni eftir klukkan fimm síðdegis.
Mikill viðbúnaður er vegna óveðursins sem spáð er en talið er að þetta verði versta óveður í aldarfjórðung. Samhæfingarmiðstöðin verður virkjuð vegna veðursins.
Gera má ráð fyrir mikilli ófærð á landinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurlandi hefur verið ákveðið að loka þjóðvegi 1 frá Markarfljóti að Breiðamerkurlóni fyrir allri umferð klukkan 12 á hádegi. Hellisheiði, Þrengsli og Mosfellsheiði verður að öllum líkindum lokað klukkan fjögur síðdegis ef veðurspá gengur eftir og fleiri leiðum í framhaldinu. Ekkert ferðaveður verður ef spár ganga eftir.
Flugi hefur enn ekki verið aflýst vegna veðurs, en ráðlegt er að fylgjast vel með upplýsingum um komutíma og brottfarir eftir því sem nær dregur.
Talið er að snjóflóðahætta muni aukast hratt samfara veðrinu en mikil úrkoma fylgir veðrinu í formi snjókomu sérstaklega á Norðurlandi og Austurlandi, frekari upplýsingar má finna á vefsíðu Veðurstofunnar.
Björgunarsveitir minna fólk á að festa lausamuni, losa frá niðurföllum og hafa eldspýtur, kerti, vasaljós og rafhlöðuknúið útvarp við höndina, til að geta fylgst með fréttum af veðrinu, þó það verði rafmagnslaust.
Frétt fengin af ruv.is
Fylgist með frekari upplýsingum fra Almannavörnum, á Facebook www.facebook.com/Almannavarnir veðurspá á www.vedur.is , færð á vegum www.vegagerdin.is og upplýsingum á textavarpinu, www.textavarp.is