Mynd 1 -gildandi deiliskipulag Hauganess ásamt afmörkun uppbyggingareits
Inngangur
Dalvíkurbyggð óskar hér með eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í þróun og uppbyggingu á svæðinu ofan Hauganess samkvæmt afmörkun á mynd 1.
Reiturinn afmarkast af gamla Hauganesvegi í norðri, Selárvegi og lóð við Syðri Ás í vestri, gildandi deiliskipulagi í austri og að sjó í suðri.
Uppbyggingasvæðið er 10 ha að stærð og er skilgreint sem landbúnaðarsvæði L2 í gildandi aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008 – 2020. Ekki liggur fyrir deiliskipulag af svæðinu.
Markmið
Markmið Dalvíkurbyggðar varðandi uppbyggingu svæðisins er að móta heildstætt svæði fyrir afþreyingu og ferðaþjónustu sem byggir á sérstöðu svæðisins og fellur vel að þeim brag sem fyrir er á Hauganesi. Gerð er krafa um að sjálfbærni og vistvæn hönnun verði höfð að leiðarljósi við alla hönnun.
Verkefnið
Verkefnið fellst í því að vinna áhugaverða skipulagslýsingu á verkefninu fyrir afþreyingu og ferðaþjónustu sem samrýmist markmiðum um þróun og uppbyggingu Hauganes sem blómlegs samfélags mannlífs og farsællar atvinnuuppbyggingar.
Í innsendri tillögu skal gerð góð grein fyrir hæfni, reynslu auk upplýsinga um fjárhagslegt hæfi.
Dalvíkurbyggð áskilur sér fullan rétt til að meta hvort uppfylltar séu kröfur um hæfi á grundvelli þeirra upplýsinga sem fylgja tillögu. Farið verður með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.
Dalvíkurbyggð áskilur sér rétt á að velja hvaða tillögu sem er eða hafna öllum án bóta.
Hvorki er greitt fyrir tillögurnar né greitt verðlaunafé. Dalvíkurbyggð mun gera viljayfirlýsingu við þann aðila sem sveitarstjórn velur úr innsendum umsóknum sem gildir í tvö ár.
Innan þess tíma skal sá aðili sem valinn verður ljúka við þá skipulagsvinnu sem vinna þarf vegna áformanna þ.e. breytingu á aðal- og deiliskipulagi ásamt stofnun lóða á sinn kostnað.
Gerður verður lóðarleigusamningur um tiltekna reiti eða svæði við þann aðila sem viljayfirlýsingin snýr að.
Athygli er vakin á því að við allan skipulagsferilinn verða breytingartillögurnar kynntar og auglýstar á lögbundinn hátt þannig að aðkoma almennings og annarra lögbundinna umsagnaraðila sé tryggð.
Öll uppbygging og rekstur innviða s.s. gatnagerð, lagnir og allt það sem þarf við uppbyggingu og rekstur svæðisins verður alfarið á kostnað þess aðila sem viljayfirlýsingin snýr að.
Framsetning á tillögum
Gerðar eru kröfur um að eftirfarandi atriði komi fram í innsendum tillögum:
- Hæfni og reynslu af sambærilegum uppbyggingarverkefnum.
- Upplýsingar um fjárhagslegt hæfi og getu til þess að standa að uppbyggingunni.
- Sýna fram á jákvætt eigið fé
- Staðfestingu sem sýni fram á skil á opinberum gjöldum
- Staðfestingu um skil á lífeyrissjóðsgjöldum.
- Sterk, frumleg grunnhugmynd og í góðu samræmi við aðliggjandi umhverfi.
- Hver er áætlaður þéttleiki byggðar.
- Fyrirkomulag á áföngum uppbyggingar innan svæðis.
- Hvernig er innra götuneti svæðisins háttað.
- Hugað verði að aðlaðandi gönguleiðum og göngustígatengingum við aðliggjandi svæði.
- Umferð bíla verði lágmörkuð innan svæðisins.
- Yfirbragð áformaðrar byggðar, s.s. húshæðir, efni o.þ.h.
- Hvernig landmótun og gróðurfari verði háttað.
- Hvernig er sjálfbærni- og umhverfissjónarmiðum náð.
- Að gengið sé útfrá blágrænum ofanvatnslausnum.
- Hvernig er tryggt að almenningur hafi óheft aðgengi að sjó.
Skilagögn og tímafrestur á tillögum
Í innsendum tillögum skal leggja fram hugmyndir að landnýtingu og innra fyrirkomulagi svæðisins í formi teikninga, þrívíddarmynda og texta. Í tillögunni skal gerð grein fyrir hæfni, reynslu ásamt upplýsingum um fjárhagslegt hæfi á textaformi.
Tillögum skal skilað inn á stafrænu formi, PDF.
Teikningar skulu vera í A1, (liggjandi).
Textaupplýsingar í A4 (standandi).
Fyrirspurnir skal senda á dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is.
Lok fyrirspurnatíma er 29.desember 2023.
Tillögur skal senda á póstfangið dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is
Umsóknarfrestur tillagna er til og með, 8. janúar 2024.
Meðfylgjandi gögn eru aðgengilega á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.
- Gildandi deiliskipulag Hauganess með hæðarlínum og loftmynd á dwg formi.
- Greinargerð með deiliskipulagi Hauganess á PDF formi.
- Húsakönnun með deiliskipulagi Hauganess á PDF formi.
- Síðari breytingar á deiliskipulagi Hauganess á PDF formi.
- Gildandi aðalskipulag Dalvíkur 2008 – 2020 á PDF formi.
Finna má gögnin hér.
Dalvík 30. nóvember 2023
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri