Ungmenni vilja verja tíma með foreldrum og fjölskyldu, bæði í útiveru, ferðalögum, íþróttum og heima við. Hversdagslegir hlutir eins og að borða saman eru efstir á óskalistanum en þessar eru niðurstöður skýrslu Forvarnardagsins sem haldinn var í nóvember 2008.
Í niðurstöðum skýrslunnar, sem gerð var í framhaldi af Forvarnardeginum og birt er í heild sinni hér á heimasíðunni, segir enn fremur að það sé áhugavert viðfangsefni samfélagsins að bregðast við þessum einföldu óskum unglinganna. Það geti fyrirtæki og sveitarfélög gert með stefnu sinni og aðgerðum.
Í skýrslunni má kynnast upplifun ungmenna um allt land á því hvernig þau sjá fyrir sér samveru fjölskyldunnar. Fjölmargar hugmyndir koma fram sem tengjast til dæmis hreyfingu og útivist en aukin samvera byggir að þeirra áliti upp gagnkvæmt traust, jákvæðni og betri samskipti innan fjölskyldunnar. Unglingarnir átta sig jafnframt á því að þeir hafa skyldum að gegna í þessum málum ekki síður en hinir fullorðnu, að þeir þurfi að leggja sitt af mörkum og sýna frumkvæði.
Líkt og á síðasta ári telja sum ungmenni að áhersla á keppni í íþróttum sé of mikil og telja þeir hana eina af ástæðum þess að margir unglingar hætti í íþróttum. Eins og áður telja margir að samvinna á milli aðila sem sjá um skipulagningu íþrótta- og æskulýðsstarfs hafi aukist og að allt félagsstarf sé virkara, öflugra og fjölbreyttara fyrir vikið. Meira ber að þeirra dómi á auglýsingum um forvarna- og tómstundastarf en áður og sama finnst þeim eiga við um umræðuna um jákvæð tengsl þátttöku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi og minni neyslu vímuefna.
Forvarnardagurinn var haldinn að frumkvæði forseta Íslands í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Reykjavíkurborg, Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands. Lyfjafyrirtækið Actavis hefur styrkt verkefnið sérstaklega.
Dagskrá Forvarnardagsins fólst í verkefnavinnu í öllum 9. bekkjum grunnskólanna í þeim tilgangi að fá fram skoðanir unglinganna sjálfra, meðal annars um það hvað helst hvetur börn og unglinga til heilsusamlegs lífernis, uppbyggilegra tómstunda og er líklegt til að forða þeim frá vímuefnaneyslu.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að ungmennin setji fram skýrar, einfaldar og í flestum tilfellum kostnaðarlitlar tillögur og mikilvægt sé að sveitarstjórnarmenn og starfsfólk æskulýðs-, íþrótta- og tómstundamála leggi við hlustir og hagnýti sér tillögurnar við stefnumótun í viðeigandi málaflokkum.
Skýrsla forvarnardagsins 2008