Dagana 20. – 22. júní síðastliðinn fór fram vinabæjarmót í Lundi en þar hittust vinabæirnir Dalvíkurbyggð, Lundur í Svíþjóð, Hamar í Noregi, Borgá í Finnlandi og Viborg í Danmörku. Dalvíkurbyggð hefur verið aðili að þessu vinabæjarsambandi síðan 1978 en hinir aðilarnir hafa verið í vinabæjarsambandi síðan 1946. Vinabæjarmót eru haldin á tveggja ára fresti og skiptast bæirnir á að halda mótin og sem dæmi hélt Dalvíkurbyggð mótið síðast árið 2011. Þátttakendur eru starfsmenn og kjörnir fulltrúar sem fara á vegum á sveitarfélaganna og félagar í norrænu félögunum sem fara á vegum sinna félaga. Dagskráin er síðan sambland af erindum, vinnufundum og kynningu á því sveitarfélagi sem heldur mótið hverju sinni. Markmiðið er, auk þess að efla almennt samstarf á milli vinabæjanna, að fjalla um tiltekin málefni sem sveitarfélögin eiga sameiginleg, efla starfsemi sveitarfélaganna með því að læra af hvort öðru ásamt því að kynnast nýju fólki og fá þannig nýja sýn á sitt eigið sveitarfélag. Dagskráin í hvert skipti er í höndum gestgjafans en undirbúningshópur skipaður einum aðila frá hverju sveitarfélagi kemur einnig að undirbúningnum.
Eins og áður kom fram fór vinabæjarmótið að þessu sinni fram í Lundi í Svíþjóð. Lundur er mjög framarlega í því að virkja þátttöku ungmenna í málefnum sveitarfélagsins og var mótið í ár því sértaklega tileiknað málefnum ungmenna. Að því tilefni fékk Lundur styrk frá Evrópusambandinu sem gerði þeim kleift að bjóða 6 ungmennum frá hverju þátttökusveitarfélagi að koma á mótið. Það var því myndarlegur hópur sem lagði af stað fyrir hönd Dalvíkurbyggðar að kvöldi 18. júní, tveir starfsmenn, tveir kjörnir fulltrúar og sex ungmenni. Auk þess að fjalla um málefni og þátttöku ungmenna í stjórnkerfinu voru sjálfbærni, þróun byggðar og lýðræðisleg þátttaka íbúa í ákvarðanatöku einnig umfjöllunarefni þingsins. Það má því segja að heildaryfirskrift mótsins hafi verið framtíðin.
Í heildina var mótið sjálft þrír dagar, mánudagur – miðvikudags og var dagskráin mismunandi eftir því hvort um var að ræða ungmenni, fulltrúa norræna félags eða starfsmann/kjörinn fulltrúa sveitarfélagsins. Allir fengu þó skemmtilega og áhugaverða blöndu af vinnusmiðjum, fyrirlestrum og kynningu á Lundi. Meðal annars var útsýnisferð um Lund, bæði í rútu og hjólandi, og ferð til Örtoftaverket sem er eitt stærsta lífmassa orkuver í suður Svíþjóð en það gengur fyrir tréafgöngum og sér 25.000 heimilum fyrir hita. Síðasta daginn unnu þó allir sameiginlega í mismunandi vinnusmiðjum og var öllum þátttakendum skipt upp í hópa þar sem unnu saman ungmenni, kjörnir fulltrúar/starfsmenn og fulltrúar norrænu félaganna. Vinnusmiðjurnar fjölluð sem dæmi um nýsköpun, leiðir til að efla sjálfbærni og þátttöku ungmenna í ákvarðantöku og leiðir til að styrkja þeirra rödd innan samfélagsins. Hver og einn hafði þarna tækifæri til að leggja sitt af mörkum og koma með sínar hugmyndir. Fullorðna fólkið var þó beðið um að stilla málflutningi sínum í hóf en leggja meiri áherslu á að hlusta á unga fólkið. Margar áhugaverðar hugmyndir litu dagsins ljós og í lokin voru þær teknar saman í eina stóra mynd sem sýnir á grafískan hátt niðurstöður vinabæjarmótsins.
Unga fólkið okkar, sem samanstóð af fulltrúum í ungmennaráði Dalvíkurbyggðar, stóð sig með miklum sóma og tók virkan þátt í öllu sem fyrir þau var lagt. Þau, og við öll sem tókum þátt, koma heim með í farteskinu ýmsar hugmyndir um það hvernig við getum eflt þátttöku unga fólksins okkar í stjórnsýslunni og samfélaginu öllu sem og hugmyndir um það með hvaða hætti er hægt að efla lýðræðislega þátttöku íbúa. Að auki höfum við nú eflt tengsl okkar við hina vinabæina, kynnst nýju og áhugaverðu fólki og myndað tengsl sem efla okkur í starfi og leik.