Tónlistarskólinn á Tröllaskaga

Tónlistarskólinn á Tröllaskaga

Frá því í byrjun árs 2014 hafa sveitarfélögin Dalvíkurbyggð og Fjallabyggð verið í samstarfi er lýtur að því að hafa einn skólastjóra yfir tónlistarskólum sveitarfélaganna. Það samstarf hefur gengið ágætlega. Í samningi sem var gerður um þetta samstarf var ákvæði þar sem lýst var yfir vilja til frekara samstarfs og jafnvel yrði skrefið stigið til fulls og skólarnir sameinaðir. Í febrúar sl. var fræðslustjórum sveitarfélaganna falið að hefjast handa við að formgera samning með það að markmiði að Tónskóli Fjallabyggðar og Tónlistarskóli Dalvíkurbyggðar yrðu sameinaðir í einn skóla.
Yfirstjórnir sveitarfélaganna hafa nú samþykkt sameininguna og mun skólinn starfa undir heitinu Tónlistarskólinn á Tröllaskaga.
Kostir við sameininguna eru nokkrir bæði faglegir og rekstrarlegir. Áætlað er að sparnaður í starfmannahaldi verði tæpum 12 milljónum króna lægri á ári en er í dag. 

Samkvæmt samningnum er markmið tónlistarskólans að efla tónlistarþekkingu og iðkun tónlistar, auk þess að stuðla að eflingu tónlistarlífs í aðildarsveitarfélögunum. Þessum markmiðum hyggst skólinn ná meðal annars með því að:
• Annast kennslu í hljóðfæraleik og söng ásamt kennslu í öðrum tónlistargreinum sem gert er ráð fyrir í aðalnámskrá tónlistarskóla.
• Bjóða upp á kennslu í sem flestum greinum tónlistar, þar sem börnum jafnt sem fullorðnum gefst kostur á að stunda tónlistarnám eftir því sem aðstæður leyfa.
• Búa nemendum fjölbreytt skilyrði til að þroska tónlistarhæfileika sína og sköpunargáfu.
• Leggja áherslu á félagslegt gildi tónlistariðkunar með þátttöku nemenda í samleik og hljómsveitarstarfi.
• Búa nemendur undir framhaldsnám í tónlist.
• Styðja kennara skólans til tónleikahalds.
Öllum nemendum í 1. – 10. bekk grunnskólanna, sé gefinn kostur á að stunda tónlistarnám sitt sem huta af samfelldum skóladegi.

Samningurinn gildir í þrjú á en bæjarstjóri Fjallabyggðar, Gunnar Birgisson og sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, Bjarni Th. Bjarnason skrifuðu undir samninginn síðastliðinn föstudag.


Skipuð verður fimm manna skólanefnd og mun Fjallabyggð eiga þrjá fulltrúa fyrsta árið og Dalvíkurbyggð tvo. Hlutfall fulltrúa á milli sveitarfélaga mun svo breytast að ári liðnu.
Skólastjóri yfir nýjum skóla verður Magnús G. Ólafsson.


Unnið er að gerð nýrrar heimasíðu fyrir skólann og verður slóðin www.tat.is