Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar
Tilnefningar
Félag: Golfklúbburinn Hamar:
Nafn: Haukur Snorrason
Ástæður tilnefningar:
Haukur var kosinn golfmaður ársins af félögum. Hann varð klúbbmeistari klúbbsins í Meistaramóti og var meðal efstu manna í flestum þeim mótum sem hann tók þátt í og spilaði fyrir hönd klúbbsins í deildarkeppni GSÍ
Félag: UMFS, Frjálsar íþróttir
Nafn: Ómar Freyr Sævarsson
Ástæður tilnefningar:
Ómar Freyr er þrátt fyrir ungan aldur mjög gamalreyndur í greininni. Hann hefur æft og stundað frjálsar íþróttir frá 7 ára aldri eða í 13 ár og það telst nú hreint afrek út af fyrir sig þar sem brottfall er mjög mikið. Það má geta þess að hann er elstur í keppnisliði UMSE aðeins tvítugur að aldri. Ómar Freyr þurfti í tvær aðgerðir fyrr á þessu ári sem gerði það að verkum að hann var lítið með keppnislega séð fyrr en í sumar. Það hinsvegar dugði honum til að vera með 2. besta árangur á landinu í ár í 200 metra hlaupi 3. besta í langstökki og samkvæmt afrekaskrá F.R.Í. besta tíma ársins í 100 metra hlaupi í flokki 19-20 ára. Sá tími fæst hinsvegar ekki gildur vegna of mikils meðvinds. Á aldursflokkamóti UMSE í sumar keppti hann í 10 greinum fyrir UMFS, vann 9 gull og eitt brons, var stigahæsti einstaklingur mótsins með rúm 40 stig en Svarfdælir unnu einmitt sem stigahæsta félagið með rúm 200 stig svo hlutur Ómars Freys var býsna stór í þeim sigri. Ómar Freyr er vel að þessari tilnefningu komin eins og sést á því hvar hann stendur á landsvísu. Meðfylgjandi upplýsingar um stöðu Ómars á landsvísu eru teknar úr drögum að afrekaskrá FRÍ fyrir unglinga 19-20 ára:
Annar í 200 metra hlaupi á 23,41 sek.
Þriðji besti árangur í langstökki 5,75 m.
Þar fyrir utan á Ómar besta tíma ársins í 100 metra hlaupi 11,18 sek. og
þriðja lengsta stökk ársins 6,29 m. sem bæði voru dæmd ógild vegna of mikils meðvinds
Félag: Skíðafélag Dalvíkur
Nafn: Björgvin Björgvinsson
Ástæður tilnefningar:
Skíðamaður Dalvíkurbyggðar árið 2004 er Björgvin Björgvinsson en hann hefur verið landsliðsmaður í íþrótt sinni undanfarin ár. Síðastliðinn vetur var erfiður hjá kappanum en eftir stífar landsliðsæfingar undanfarið hefur birt til og til marks um það má nefna að Björgvin náði 5. sæti í svigi á fyrsta Evrópubikarmóti vetrarins sem haldið var innanhús í Hollandi. Þetta er besti árangur Björgvins hingað til og í raun annar besti árangur Íslendings á Evrópubikarmóti frá upphafi. Einnig náði Björgvin mjög góðum árangri á fyrsta stórsvigsmóti vetrarins sem haldið var í Finnlandi. Þar var hann í 30. sæti og fékk fyrir það eitt Evrópubikarstig sem tryggir honum betra rásnúmer á næsta móti. Björgvin er því greinilega á góðri siglingu um þessar mundir og það verður spennandi að fylgjast með honum á komandi vetri.
Félag: Blakfélagið Rimar
Nafn: Kristján Tryggvi Sigurðsson
Ástæður tilnefningar:
Kristján hefur verið ötull liðsmaður blakíþróttarinnar til fjölda ára og er með mikla reynslu. Sem uppspilari og þjálfari karlaliðsins stjórnar hann leik liðsins af miklum skörungsskap, en þeir eiga sæti í 1. deild öldungamótsins. Kristján hefur ekki einungis lagt blakinu á Dalvík lið sitt heldur einnig blakíþróttinni um land allt, t.d. með myndugri dómgæslu. Eins hefur hann komið að þjálfun kvennaliðsins til fjölda ára.
Félag: Sundfélagið Rán
Nafn: Þorgerður Jóhanna Sveinbjarnardóttir
Ástæður tilnefningar:
Landsmótsmeistari í 100 m. skriðsundi á Sauðárkróki sumarið 2004 en Þorgerður náði sínum besta árangri í sundinu þar sem hún sigraði óvænt eftir harða samkeppni. Á árinu sýndi sundkonan stöðugar framfarir og hún bætti sinn fyrri árangur í öllum greinum. Þorgerður á stigahæstu sund félagsins. Á IMÍ í Vestmannaeyjum náði Þorgerður sínu takmarki sem var að komast í úrslitasund. Þorgerður sýnir sundinu mikinn áhuga og stundar æfingar sex daga vikunnar. Dugnaður sundkonunnar hefur skilað prýðilegum árangri á árinu sem senn er á enda.
Félag: UMSE, knattspyrnudeild
Nafn: Ingvi Hrafn Ingvason
Ástæður tilnefningar:
Ingvi hefur staðið sig mjög vel undanfarinn ár sem knattspyrnumaður með sameiginlegu liði Leifturs og Dalvíkur. Ingvi er mikill félagsmaður og hefur mikinn metnað. Ingvi hefur einnig komið mikið að þjálfun yngri flokka á Dalvík. Ingvi hefur lagt mikinn metnað í það starf og verið góð fyrirmynd fyrir yngri knattspyrnumenn á Dalvík.
Félag: UMFS, körfuknattleiksdeild
Nafn: Jóhann Heiðar Friðriksson
Ástæður tilnefningar:
Jóhann Heiðar átti mjög gott ár með körfuknattleiksdeild Dalvíkur á liðnu ári. Hann stundaði íþrótt sína af miklum áhuga og uppskar góðan árangur. Hann átti stóran þátt í því að liðið tryggði sér sæti í úrslitum 2. deildar karla í körfubolta. Jóhann er góð fyrirmynd og góður fulltrúi körfuknattleiksmanna í kjöri íþróttamanns Dalvíkurbyggðar.
Félag: UMF Reynir, frjálsar íþróttir
Nafn: Jóhann Björgvin Elíasson
Ástæður tilnefningar:
Jóhann Björgvin er mjög öflugur frjálsíþróttamaður þó ungur sé að árum. Hann er fjölhæfur og hefur um árabil verið í toppsætum í mörgum greinum á mótum UMSE. Með sama áframhaldi á hann bjarta framtíð sem frjálsíþróttamaður.
Félag: UMF Reynir, knattspyrnudeild
Nafn: Þorvaldur Eyfjörð Kristjánsson
Ástæður tilnefningar:
Þorvaldur er léttleikandi og skemmtilegur knattspyrnumaður. Hann er jákvæður, góður félagi og hvetur samherja sína óspart til dáða á vellinum. Þorvaldur var valinn knattspynumaður UMF Reynis árið 2004 af leikmönnum félagsins og er verðugur fulltrúi í kjöri um íþróttamann Dalvíkurbyggðar.
Félag: Hestamannafélagið Hringur
Nafn: Agnar Snorri Stefánsson
Ástæður tilnefningar:
Agnar Snorri stóð sig mjög vel á keppnisvellinum á þessu ári. Má þar m.a. nefna; 1. sæti í tölti í Svarfdælsku mótaröðinni, 1. sæti í gæðingaskeiði á Bikarmóti Norðurlands, 2. sæti í A-flokki á Fákaflugi og sigur í fjórgangi og fimmgangi á Melgerðismelum um Verslunarmannahelgina. Á úrtökumóti vegna Landsmóts hestamanna var Agnar með tvo efstu í A-flokki og 2. hest í B-flokki og fór því með þrjá hesta á landsmót fyrir Hring.
Á landsmóti UMFÍ sigraði Agnar bæði í fjórgangi og fimmgangi og varð í 3.sæti í gæðingaskeiði.
Á Íslandsmótinu í hestaíþróttum varð hann í 5. sæti í fjórgangi og í 8.sæti í fjórgangi, auk þess sem hann náði góðum árangri í kynbótasýningum.
Fleiri afrek mætti telja, en þótt árangur í keppni sé mikilsverður kemur fleira til. Agnar Snorri stóð efstur í reiðmennsku á reiðkennarabraut við Hólaskóla sl. vor og til hans er litið sem góðs tamningamanns og kennara.
Meðal annars var hann fenginn til að kenna við Hólaskóla nú í haust. Slík viðurkenning og traust segir meira en mörg orð.