Til starfsmanna Dalvíkurbyggðar

Til starfsmanna Dalvíkurbyggðar

Nú er liðið hálft ár frá því að að ný sveitarstjórn tók til starfa og ég tók við sem sveitarstjóri.

Þessi tími hefur verið afar lærdómsríkur, annasamur og krefjandi en umfram allt sérstaklega skemmtilegur. Það er góð tilfinning að vakna á hverjum morgni fullur tilhlökkunar á að takast á við verkefni dagsins sem eru oftast í meira lagi fjölbreytt. Starfsandinn er frábær og þar er gott fólk í hverju rúmi.

Sveitarstjórn hefur verið samhent og þar ríkir góður andi og fín samvinna. Fyrir nýja kjörna fulltrúa hefur verið afar gagnlegt að hafa fólk í ráðum og nefndum sem sumt hvert hefur langa reynslu af sveitarstjórnarmálum. Þá er ómetanleg sú reynsla og þekking sem býr í starfsfólki Dalvíkurbyggðar og erum við sérstaklega lánsöm hvað það varðar. Stóra verkefnið í haust var fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2019 og þriggja ára áætlun en þessar áætlanir voru samþykktar við síðari umræðu í sveitarstjórn þann 20.nóv.sl.

Ég sakna þess að hafa ekki komist meira út af skrifstofunni síðustu vikur í heimsóknir til fyrirtækja og stofnana Dalvíkurbyggðar. Vonandi get ég gert bragarbót á því núna þegar fjárhagsáætlunarvinna er að baki. Ég hvet forstöðumenn stofnana og starfsfólk til að vera duglegt að láta mig vita af hvers kyns viðburðum sem eru í gangi. Þannig get ég fylgst betur með því mikla og góða starfi sem er unnið hjá Dalvíkurbyggð og fæ þá tækifæri til að kíkja við hjá ykkur í dagsins önn.

Framundan er jólahátíðin og áramót. Ég óska þess að þið megið öll njóta hátíðanna í faðmi fjölskyldu og vina og koma til baka tvíefld og full af orku og gleði fyrir nýju ári. 

Katrín Sigurjónsdóttir,

Sveitarstjóri.