Húsabakkaskóli hefur í vetur unnið með lestrarverkefni sem kallað hefur verið Yndislestur - bók er best vina. Þetta verkefni hefur verið gert sýnilegt með bókaskrímslinu sem við höfum reglulega birt fréttir af m.a. hér á heimasíðu skólans, í Bæjarpóstinum og ekki alls fyrir löngu í Morgunblaðinu.
Skólinn sótti um styrk í Þróunarsjóð grunnskóla til þess að þróa þetta verkefni frekar og til þess að fá aðstoð við að útbúa mat á árangri verkefnisins. Þróunarsjóði grunnskóla bárust að þessu sinni alls 61 umsókn til verkefna sem féllu undir áherslur sjóðsins fyrir næsta skólaár. Áherslurnar voru: Læsi til menntunar og fjölbreytt námsmat. Flestar féllu umsóknirnar að auglýstum áherslum. Samanlögð upphæð umsókna var um 90 milljónir króna en sjóðurinn hafði 12,1 milljón króna til úthlutunar. Húsabakkaskóli hlaut 200.000 kr. styrk úr sjóðnum fyrir Yndislestrarverkefnið.
Fimm manna ráðgjafanefnd fór yfir umsóknir og gerði tillögur til menntamálaráðherra um úthlutanir úr sjóðnum.
Nemendur og starfsfólk skólans er stolt af því að Yndislestrarverkefnið hafi komist svo langt að hljóta styrk úr Þróunarsjóði grunnskóla, og þá sérstaklega ef horft er til fjölda umsókna.