Þriggja ára áætlun Dalvíkurbyggðar 2013 - 2015

Þriggja ára áætlun Dalvíkurbyggðar 2013 – 2015
Framsaga bæjarstjóra 24. janúar 2012 

Ég ætla að flytja hér stutta greinargerð með þeim drögum að þriggja ára áætlun fyrir árin 2913 – 2015 sem nú koma til fyrri umræðu í bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar, en samkvæmt lögum á þriggja ára áætlun að koma til viðbótar fjárhagsáætlun ársins.

Bæjarráð tók ákvörðun um það á fundi sínum 1. desember sl. að 3 ára áætlun yrði unnin með sama hætti og undanfarin ár; þ.e. áætlunin yrði sett upp á föstu verðlagi og áætlun ársins 2012 notuð sem grunnur út tímabilið, sem er sú aðferð sem hér hefur verið notuð. Síðan eru teknar út svokallaðar einskiptis ákvarðanir og settar inn þær breytingar á rekstri og þær fjárfestingar sem fyrirsjáanlegar eru, eða óhjákvæmilegar, á næstu árum.

Ýmsar breytur koma líka til álita s.s. breytingar á íbúaþróun og atvinnustigi. Við gerð þessarar áætlunar er gert ráð fyrir svipuðum íbúafjölda og undanfarin ár, enda höfum við ekki traustar upplýsingar um annað, og að atvinnustig verði hátt eins og verið hefur. Þá horfum við m.a. til þess að hér eru að skapast ný atvinnutækifæri, bæði í framleiðslu s.s.hjá Sæplasti/Promens og þjónustu, en skammtímavistun á Dalvík sem tekur til starfa nú um mitt ár, hefur í för með sér a.m.k. fimm ný störf. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á álagningu skatta og gjalda og það á þá líka við um þróun fasteignamarkaðar í byggðarlaginu.

Það er ljóst að sveitarfélagið þarf að fara fram með gjaldskrárhækkanir af varkárni og nærgætni við íbúana þar sem þess er vart að vænta að kaupmáttur vaxi mikið á næstunni þó vonandi verði næg atvinna.

Í lok þessa árs rennur út sá tími sem ákveðið var að fella niður gatnagerðargjöld vegna þeirra framkvæmda sem hafnar yrðu fyrir þann tíma.

Rekstraryfirlit
Þær breytingar sem eru fyrirséðar á rekstri á þessu tímabili eru:
Nýr skóli í Árskógi, en gert er ráð fyrir að rekstarkostnaður hans verði sá sami og þeirra tveggja skóla sem þar eru nú starfandi. Innri leiga mun þó hækka vegna þeirra framkvæmda sem farið verður í á þessu ári. Skammtímavistun fyrir fötluð börn, en sá kostnaður sem er því samfara mun greiðast úr sameiginlegum sjóði byggðasamlags um málefni fatlaðra sem Dalvíkurbyggð er aðili að. Síðan eru einhverjar tilfærslur á tímabundnum stöðugildum á meðan stórir árgangar eru að fara í gegnum leikskólakerfið. Gert er ráð fyrir því að Krílakot taki inn yngri börn á móti þeirri fækkun sem verður þegar stórir eldri árgangar færast á Kátakot.

Ekki er gert ráð fyrir breytingum í rekstri sveitarfélagsins vegna flutnings á verkefnum frá ríki til sveitarfélaga en það liggur fyrir að verið er að undirbúa að málefni aldraðra verði flutt til sveitarfélaganna, líklega þó ekki fyrr en um áramótin 2013 – 2014 sem er inná þessari áætlun og verður þá tekið á því þegar það liggur fyrir.
Annars virðist reksturinn kominn í ákveðið jafnvægi og áætlunin ber þess merki.

Ef við lítum fyrst á rekstraryfirlit áætlunarinnar þá er aðalsjóður rekinn með í kringum 25 m kr. afgangi öll árin. A hlutinn, þ.e. aðalsjóður og eignasjóður, er einnig með góðan afgang öll árin eða frá 23 og uppí 30 m kr. afgang og rekstrarniðurstaða A og B hluta, eða samstæðunnar, er líka jákvæð öll árin með frá ríflega 40 m kr. til 58 m kr. afgang.

Við sjáum á lykiltölum að hlutföll í tekjum hafa verið að breytast en virðast þó einnig vera að komast í ákveðið jafnvægi eftir að hlutur Jöfnunarsjóðs óx mikið á árunum 2007 til 2008 en hefur síðan hrapað. Þá hafa orðið breytingar á áherslum Jöfnunarsjóðs þar sem útsvarstekjur Dalvíkurbyggðar hafa verið að styrkjast og þar með lækkar tekjujöfnunarframlagið. Áframhaldandi breytingar á Jöfnunarsjóði ættu þó að leiða til þess að útgjaldajöfnunarframlag til Dalvíkurbyggðar aukist, m.a. vegna fjölda barna á skólaaldri, þannig að þetta nái ákveðnu jafnvægi.

Handbært fé vex á tímabilinu sem og veltufjármunir og veltufjárhlutfall eykst frá 1,29 árið 2013 í 1,66 árið 2015, sem aðeins of hátt og kemur til skoðunar þegar nær dregur.

Á áætlunartímabilinu lækka skuldir á íbúa mjög hratt en þær eru í ár áætlaðar 655 þús. pr. íbúa en verða orðnar 553 þús pr. íbúa árið 2015, enda eru langtímalán greidd niður öll árin um og yfir 110 m kr. árlega.

Ekki eru fyrirhugaðar miklar breytingar á rekstri veitna eða annarra B hluta fyrirtækja. Í ár er gjaldtaka Vatnsveitu með nýjum hætti og ákveðið hefur verið að kanna með sambærilega breytingu hjá Fráveitu. Rekstraráætlanir veitna sýna, m.v. gefnar forsendur, að þær eru allar í góðum rekstri og gert er ráð fyrir sambærilegum fjárfestingum árlega og eru í ár.

Áætlað er að Hafnasjóður verði rekinn með afgangi öll árin og að fjárhagsstaða hans styrkist frá ári til árs.

Hinsvegar er áætlað að Félagslegar íbúðir séu árlega reknar með halla uppá á annan tug milljóna ár hvert og ætla má að þurfi að greiða með árlegum rekstri. Það er yfirlýst markmið að fækka áfram íbúðum í eigu sveitarfélagsins og hafa ráðstafanir verið gerðar til þess svo sem með nýjum reglum sem veita íbúum forkaupsrétt.

Ástæða er til að vekja athygli á að ekki er gert ráð fyrir neinum niðurskurði í rekstri. Reglulegt aðhald skilar sér og getum við því litið sátt til þeirrar áætlunar sem fyrir liggur.

Fjárfestingar
Fjárfestingar eru helstar í þessari áætlun í gatna- og stígagerð og slíkum umhverfismálum sem og lýsingu fyrir samtals 34 m kr. árlega, öll árin. Einnig er gert ráð fyrir að fjárfesta í búnaði og frágangi á lóðum vegna skóla í sveitarfélaginu. Þá er gert ráð fyrir fjármunum öll árin til að vinna að endurbyggingu UNGÓ. Á árinu 2013 er gert ráð fyrir byggingu þjónustuhúss við íþróttavelli og tjaldsvæði á Dalvík, en drög að deiliskipulagi svæðisins liggja nú fyrir. Þá má ætla að viðhald á eignum verði sambærilegt því sem verið hefur, auk ýmissa smærri verkefna.

Mikill áhugi er jafnan á frekari uppbyggingu á íþróttasviðinu. Við verðum þó að horfa til slíkra framkvæmda með hliðsjón ef stöðu sveitarsjóðs því í öllum tilfellum væri verið að tala um styrki en ekki fjárfestingu þar sem eign kæmi á móti. Þá er rétt að líta til þess hver vilji ríkisins er til að koma til móts við stærri framkvæmdir eins og við íþróttavöll og verður það eitt af verkefnum nýs íþrótta-og æskulýðsfulltrúa að kanna það til hlýtar í samvinnu við íþróttafélögin.

Almennt um áætlunina
Þriggja ára áætlun er gerð til að sveitarstjórn horfi til framtíðar og setji sér ramma um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins eftir þeim bestu upplýsingum sem hún hefur. Þannig er reynt að draga upp mynd af því sem búast má við miðað við gefnar, en þó einkum þekktar forsendur og sjá hvað er mögulegt ef við viljum reka sveitarfélagið af ábyrgð og standa vel við allar okkar skuldbindingar og uppfylla jafnframt þær kröfur sem gerðar eru til þjónustu við íbúana.

Í ár munum við vinna fjögurra ára áætlun samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum, þ.e. fjárhagsáætlun næsta árs og fyrir næstu þrjú árin verður unnin samhliða og rædd og samþykkt samhliða. Það mun væntanlega þýða meira álag fyrir nefndir og ráð sveitarfélagsins á þessu hausti en jafnframt, ef allt gengur eftir, að desember og janúar verði ekki eins annasamir og áður.

Ég vil þakka starfsfólki og bæjarfulltrúum samstarfið við gerð þessrar áætlunar sem hefur verið gott eins og jafnan áður.

Þriggja ára áætlun 2013-2015