Þriggja ára áætlun Dalvíkurbyggðar 2011 – 2013

Framsaga bæjarstjóra 19. janúar 2010, fyrri umræða um þriggja ára áætlun 2011-2013:

Ég mæli hér fyrir þriggja ára áætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2011 – 2013, en samkvæmt lögum á þriggja ára áætlun að koma til viðbótar fjárhagsáætlun ársins.


Sú þriggja ára áætlun sem nú er í gildi var gerð við þær aðstæður í efnahagslífi þjóðarinnar að óvissa var óvenju mikil. Það kom því þægilega á óvart þegar við vorum að vinna fjárhagsáætlun ársins 2010 hve vel áætlanir féllu saman. Sem segir okkur að það er líka hægt að vinna góðar áætlanir á óvissutímum. Líklega er aldrei meiri þörf fyrir góðar áætlanir en á óvissutímum. Og ekki er óvissan minni nú en fyrir ári.


Þessi áætlun er sett upp á föstu verðlagi, þ.e, við notum árið í ár sem grunn út tímabilið, sem er sú aðferð sem hér hefur verið notuð. Síðan setjum við inn þær breytingar á rekstri og þær fjárfestingar sem fyrirsjáanlegar eru. Ýmsar breytur koma líka til álita s.s. breytingar á íbúaþróun og atvinnustigi, en við gerð þessarar áætlunar gerum við í raun ráð fyrir að þetta verði svipað og í ár, þ.e. svipaður íbúafjöldi og atvinnustig. Sömuleiðis gerum við ekki ráð fyrir breytingum á álagningu skatta og gjalda og það á þá líka við um þróun fasteignamarkaðar í byggðarlaginu. Við vitum hinsvegar að við erum að fá inn stóra árganga nýbura , líklega þriðja árið í röð, sem hefur áhrif á bæði rekstur og fjárfestingar. En meira um það á eftir.


Rekstraryfirlit
Ef við lítum fyrst á rekstraryfirlit áætlunarinnar þá er aðalsjóður rekinn með góðum afgangi öll árin eða í kringum 100 milljónir, en til samanburðar er hann rekinn með um 140 m kr. afgangi í ár samkvæmt áætlun . Rekstrarniðurstaða A og B hluta er líka jákvæð öll árin með um og yfir 60 m kr. í afgang
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 14. janúar sl. við afgreiðslu á 3ja ára áætlun að miðað yrði við að ekki yrði farið í lántökur og að rekstrarkostnaður miðaðist við það. Og þannig stendur áætlunin; ekki er gert ráð fyrir neinum nýjum lánum, en óvarlegt er að gera út á lántökur um þessar mundir þegar bæði er óvíst um lánsfé og þau kjör sem kunna að bjóðast. Hinsvegar er gert ráð fyrir því að greiða yfir eitt hundrað milljónir af langtímalánum árlega. Handbært fé vex á tímabilinu sem segir okkur að rekstrarhæfni sveitarfélagsins eykst og það getur mjög vel staðið undir þeim rekstri og fjárfestingum sem lagt er upp með.


Við sjáum á lykiltölum að hlutföll í tekjum eru að breytast þar sem skatttekjur aukast hlutfallslega sem og aðrar tekjur á meðan framlög jöfnunarsjóðs lækka. Þarna gætir væntanlega bæði þess að tekjur ríkissjóðs eru að lækka og svo þess að útsvarstekjur í sveitarfélaginu eru að aukast. Þetta er í raun sú breyting sem við sjáum strax í ár og er nokkuð mikil m.v. árið 2008 en gert er ráð fyrir að tekjur í krónutölum aukist og hafi aukist úr 698 þús kr. pr íbúa árið 2008 í 725 þúsun kr.á árinu 2013 m.v. fast verðlag.


Á sama tíma breytast skuldir úr 623 þús pr. íbúa árið 2008, fara hæst í 706 þús. kr. pr. íbúa í ár, en áætlað að verði 619 kr. árið 2013. Þetta eru vísbendingar sem við viljum sjá, hækkandi tekjur á íbúa og lækkandi skuldir, ekki síst þar sem við höfum fjárfest mikið á undanförnum árum og þó aldrei eins og í ár.


Þær breytingar í rekstrinum sem við tökum inn í áætlunina eru m.a. afleiðingar þeirra fjárfestinga sem við höfum verið í s.s. vegna nýs íþróttahúss þar sem til verður hálf ný staða og meiri rekstrarkostnaður kemur til m.a. vegna meiri leigu eignasjóðs. Þá hefur ekki verið ákveðið hvað gert verður við gamla íþróttahúsið þegar núverandi hlutverki þess lýkur.


Meira fé er að fara til menningarmála, bæði hálf staða til bókasafns, aukið fé til héraðsskjalasafns og til að hefja endurnýjun á Ungó, sem verður 80 ára í ár. Vonandi náum við góðu samkomulagi við Húsafriðunarsjóð um styrki varðandi útlit hússins, en sjóðurinn hefur sýnt því áhuga að koma að því verkefni. Þá er gert ráð fyrir styrkjum til félaga en aukning í rekstri er þó einkum vegna þess að börnum er að fjölga umfram það sem eldri áætlanir gerðu ráð fyrir. Það þýðir að við fjölga þarf starfsfólki við leikskóla. Ekki er gert ráð fyrir miklum breytingum við aðra skóla en aðeins aukið starfshlutfall á skólaskrifstofu. Aðrar breytingar eru ekki fyrirhugaðar á skrifstofu sveitarfélagsins.


Ekki eru fyrirhugaðar breytingar á rekstri veitna eða annarra B hluta fyrirtækja. Rekstraráætlanir B hluta fyrirtækja m.v. gefnar forsendur sýna að Hitaveita verður rekin með allt að 20 m kr. afgangi árlega út tímabilið og sömuleiðis Vatnsveita með um 10 m kr. afgang árlega. Rekstur Fráveitu er í járnum og HSD með halla uppá 9 – 10 m kr á ári. Félagslegar íbúðir eru sömuleiðis árlega reknar með halla í kringum 17 m kr. Rekstraráætlanir þessara fyrirtækja, utan e.t.v. Vatnsveitu, eru þó mjög viðkvæmar fyrir verðbólgu vegna þeirra skulda sem þau bera.
Ekki er í þessar áætlun gert ráð fyrir sölu íbúða í eigu sveitarfélagsins. Það er þó yfirlýst markmið að selja áfram íbúðir eins og markaðurinn tekur við.


Fjárfestingar
Á þessu ári eru fjárfestingar mjög miklar eða tæplega 330 milljónir alls. Þar ber hæst lúkning á byggingu íþróttahúss upp á tæplega 260 m kr. og áhöld og tæki í húsið fyrir um 27 m kr. Á næsta ári er gert ráð fyrir frekari kaupum á búnaði fyrir um 17 m kr. Heildar fjárfestingar á næstu árum eru nokkru lægri en í ár en eru þó á annað hundrað milljónir á hverju ári m.v. þessa áætlun.
Þegar byggingu íþróttahúss er lokið er næsta stóra verkefni að skoða skólabyggingar á Dalvík, bæði vegna breytinga og viðhalds sem er orðið aðkallandi svo sem á Víkurrastarhúsinu og einnig til að mæta auknum barnafjölda á næstu árum. Ljóst er að skipuleggja þarf nýtingu húsa á skólalóðinni m.v. breyttar forsendur og eru 50 m kr. settar til þess árlega næstu þrjú árin. Þá er einnig gert ráð fyrir Krílakoti og hugsanlegri stækkun þar. Í fyrstu verður þó auknum barnafjölda mætt með því að taka í notkun færanlega kennslustofu í eigu sveitarfélagsins og setja við Krílakot og liggur nú fyrir ósk um að það verði gert strax í ár.


Ljóst er að mikill áhugi er á frekari uppbyggingu á íþróttasviðinu og hafa félögin sent inn hugmyndir sínar og óskir um frekari framkvæmdir. M.a. hefur verið horft til þess að mæta óskum og þörfum frjálsíþróttafólks með endurnýjun vallanna og nýjum mannvirkjum þar.


Nú er verið að hefja vinnu við deiliskipulag íþróttasvæðisins á Dalvík og verður á grundvelli þess hægt að ákveða röð framkvæmda á næstu árum. Þar er þá m.a. horft til þess að unnt verði að halda hér unglingalandsmót þó tímasetningar þess séu nú í meiri óvissu en áður vegna þeirra efnahagsaðstæðna sem landið býr við og þar með óvissa um stuðning ríkisins við slikar framkvæmdir.


Ég gat áðan um Ungó í tengslum við menningarmálin en gert er ráð fyrir 5 m kr. árlega í viðhald þess húss.
Þetta er það helsta varðandi fjárfestingar en auk þessa er gert ráð fyrir lyftu í Rima og búnaðarkaupum í Menningarhúsið Berg á næstu árum. Síðan er gert ráð fyrir árlegu viðhaldi á húsnæði í eigu sveitarfélagsins og uppsetningu öryggiskerfis fyrir um 20 m kr. árlega samtals.


B hluta fyrirtæki
Gert er ráð fyrir að B hluta fyrirtækin verði í einhverjum fjárfestingum öll árin. Vatnsveita er með 10 m kr. framkvæmd árlega og verður einkum unnið á Ströndinni. Sama á við um Fráveitu, þar eru líka 10 m kr árlega á áætlun og beinast einnig að endurnýjun fráveitu á Ströndinni. Þá er gert ráð fyrir mælaskiptum hjá hitaveitu uppá 25 m kr. á tímabilinu. Gatnagerðarframkvæmdir og endurnýjun á götulýsingu eru áætlaðar fyrir um og yfir 20 m kr. árlega öll árin. Þá er gert ráð fyrir fjármagni til framhaldsskóla Eyjafjarðar, 2 m kr. árlega sem að líkindum verður einkum vegna framhaldsskóla í Ólafsfirði.


Gerðar hafa verið viðskiptaáætlanir vegna hugsanlegra ríkisstyrkja vegna hafnaframkvæ