Þriggja ára áætlun 2008-2010 fyrir Dalvíkurbyggð hefur verið sett hér á heimasíðuna en þriggja ára áætlun er gerð skv. ákvæði í 63. grein sveitarstjórnarlaga þar sem segir að árlega skuli sveitarstjórn semja og fjalla um þriggja ára áætlun um rekstur, framkvæmdir og fjármál sveitarfélagsins og ber sveitarstjórn að fjalla um áætlunina á tveimur fundum líkt og um fjárhagsáætlun. Umfjöllun skal vera lokið tveimur mánuðum eftir að fjárhagsáætlun hefur verið afgreidd.
Í þeirri áætlun sem hér liggur fyrir er viðhöfð sú aðferð sem hér hefur tíðkast, þ.e. að vísitalan er sú hin sama og fyrir það ár sem síðast var gerð fjárhagsáætlun fyrir, hér 2007 þ.e. við reiknum með 4,5%, og því allt á föstu verðlagi. Aðalsjóður er því með jákvæða afkomu öll árin líkt og í áætlun yfirstandandi árs enda ekki uppi áætlanir um stórar breytingar í rekstri á þessari stundu.
Afkoma aðalsjóðs er reyndar það góð að miðað við þessa áætlun má reikna með að skuld eignasjóðs við aðalsjóð verði orðin hátt á þriðja hundrað milljónir í árslok 2010. Breytingar á milli ára ráðast m.a. af þeim framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru, en í þessari áætlun ber lang hæst áætlanir um byggingu íþróttahúss sem samtals er í áætluninni uppá 350 milljónir á árunum 2008 og 2009.
Framsögu bæjarstjóra má nálgast í heild sinni hér.