Stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar úthlutaði í dag í þriðja skipti á árinu þátttökuframlögum úr Vaxtarsamningi Eyjafjarðar 2008-2010 en samningurinn var undirritaður í janúar síðastliðnum. Á samningstímanum er varið 90 milljónum króna úr ríkissjóði í þeim tilgangi að efla nýsköpun atvinnulífsins á Eyjafjarðarsvæðinu og auka hagvöxt með samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins. Vaxtarsamningurinn samþykkti að þessu sinni þátttöku í 8 verkefnum og ver til þeirra samtals 7.850.000 kr. Þar af fengu tvö fyrirtæki úr sveitarfélaginu hérna styrk upp á samtals 1.850.000.-
Fyrsta skilyrði fyrir þátttöku Vaxtarsamningsins í verkefnum er að um sé að ræða samstarf tveggja eða fleiri aðila og skal minnst helmingur þátttakenda vera fyrirtæki. Þá er lögð áhersla á verkefni sem efla tengsl háskóla og atvinnulífs, sem og verkefni sem miða að markaðssetningu og útrás. Við val á verkefnum er við það miðað að þau efli nýsköpun á Eyjafjarðarsvæðinu og stuðli að vexti svæðisins.
Verkefni sem hljóta samþykki hjá Vaxtarsamningi Eyjafjarðar fyrir þátttöku fá allt að 50% heildarkostnaðar við þau, gegn mótframlagi annarra þátttakenda.
Þau verkefni sem Vaxtarsamningurinn samþykkti í dag að taka þátt í eru:
Pólýhúðun Akureyri ehf., Promat Akureyri ehf.
Þróun aðferða við notkun örverudrepandi yfirborðsefna í duftlökkun
Samtals: 1.250.000
Bergmenn ehf., Tröllaskagi ehf., Jökull Bergmann
Þyrluskíðun á Tröllaskaga
Samtals: 1.250.000
Búnaðarsamband Eyjafjarðar og Austurlands, Heykögglun Stefáns Þórðarsonar auk bænda ofl. aðila.
Undibúningur að smíði og kaupum á færanlegri heykögglaverksmiðju
Samtals: 750.000
Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi auk fjölda ferðaþjónustuaðila
Framleiðsla og dreifing kynningarmyndbands um Norðurland
Samtals: 1.000.000
Freyr Antonsson, Dalvíkurbyggð, Norðurströnd ehf., Tréverk ehf., Rimar ehf., Veisluþjónustan hafnarbraut 5 ehf..
Gerð viðskiptaáætlunar fyrir stofnun þjónustufyrirtækis á Dalvík fyrir fyrirtæki á Dalvík og nágrenni.
Samtals: 600.000
Akureyrarstofa ásamt fjölda aðila á og í nágrenni Akureyrar
Komdu norður - markaðsátak norðlenskra fyrirtækja
Samtals: 1.000.000
Ráðgjafaþjónustan Bjarkir ehf., Stefna ehf.
Vefútgáfa þjónustu og gæðamatslista fyrir eldra fólk
Samtals: 1.000.000
Haffari ehf., Gloppa ehf.
Fiskur og fugl - Samvinna 2ja ferðaþjónustuaðila sem leggja saman afþreyingu, veitingar og gistingu
Samtals. 1.000.000
Frétt fengin af heimasíðu Atvinnuþróunarfélgsins www.afe.is