13 manns í Dalvíkurbyggð á ýmsum aldri stunda nú nám í Grunnmenntaskóla í Námsverinu á Dalvík, en að skólahaldinu standa Námsverið í samstarfi við Símey, Símenntunarstöð Eyjafjarðar.
Grunnmenntaskólinnn er nám fyrir fólk á vinnumarkaði 20 ára og eldra með stutta formlega skólagöngu. Tilgangur skólans er að stuðla að jákvæðu viðhorfi til áframhaldandi náms og auðvelda fólki að takast á við núverandi verkefni. Áhersla er lögð á að námsmenn læri að læra, efli sjálfstraust sitt og styrki stöðu sína í almennum greinum.
Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta megi skólann til styttingar náms í framhaldsskóla til 24 eininga.
Námið skiptist í tvær lotur, sú fyrri frá nóvember-janúar og hin seinni frá janúar til maí. Kennsla fer fram á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 16:00-19:00 og einstaka laugardaga, en alls er námið um 300 kennslustundir (200 klst.)
Áhersla er lögð á að hjálpa fólki að koma sér af stað aftur í námi, eftir mislangt hlé, og meðal kennslugreina eru t.d. sjálfstyrking, samskipti, tjáning og námstækni, en einnig eru áfangar í ensku, íslensku, stærðfræði og tölvufræði. Ekki verður um eiginleg próf að ræða á námstímanum, heldur skila nemendur verkefnum, auk þess sem almenn frammistaða þeirra er metin og krafist er 80% mætingarskyldu.
Ljósmyndina tók Halldór Ingi, blaðamaður á Bæjarpóstinum, af nemendum skólans ásamt Arnari Símonarsyni kennara.