Þjónustukannanir - Dalvíkurbyggð sem þjónustuveitandi

Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð er eitt stærsta þjónustufyrirtækið í sveitarfélaginu. Þjónusta þess er margþætt og flókin, lögbundin og ekki lögbundin, og tekur til allra íbúa. Markmið sveitarfélagsins er að bjóða íbúum upp á eins góða þjónustu og mögulegt er miðað við þær aðstæður sem fyrir hendi eru hverju sinni.

Þann 19. júní síðastliðinn samþykkti sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar þjónustustefnu fyrir sveitarfélagið (www.dalvikurbyggd.is/Stjornsysla/Fjarmala--og-stjornsyslusvid/reglugerdir/ ) en með einum eða öðrum hætti komu allir starfsmenn sveitarfélagsins að gerð hennar. En það er ekki nóg að vera með stefnu, það þarf að fylgja henni eftir og stöðugt að huga að því hvar má bæta þjónustuna og breyta henni til að hún þjóni sem best sínum tilgangi. Einn liður í því er að heyra skoðanir íbúanna.

Þjónustukannanir - Við  þurfum þitt álit!

Á næstu mánuðum gefst íbúum kostur á að taka þátt í stuttum spurningakönnunum sem miða allar að því að meta þjónustu sveitarfélagsins. Spurt verður um einstaka þjónustuþætti eða málaflokk í hverri könnun.

Með þessum könnunum er með markvissum hætti verið að kalla eftir skoðunum íbúa á þjónustunni með það að markmiði að bæta hana enn frekar. Það er því mikilvægt að sem flestir nýti sér þetta tækifæri, taki þátt og komi þannig sínum sjónarmiðum á framfæri.

Í fyrstu könnun verður spurt um upplýsingar frá sveitarfélaginu s.s. heimasíðu, facebook síðu, Mín Dalvíkurbyggð og fleira.

Til að taka þátt fara íbúar inn á Mín Dalvíkurbyggð,  á www.dalvikurbyggd.is , smella þar á Kannanir og kosningar og velja þá spurningakönnun sem í boði er hverju sinni.
Hver könnun verður á vefnum í einn mánuð.
Svörin eru ekki rekjanleg.

Við bendum svo íbúum á að á heimasíðu Dalvíkurbyggðar, www.dalvikurbyggd.is, er hægt að senda inn rafrænar ábendingar til sveitarfélagsins.


Með fyrirfram þökk og von um góða þátttöku
Margrét Víkingsdóttir, upplýsingafulltrúi margretv@dalvikurbyggd.is