Fimmtudaginn 15. janúar mun Dagbjört Ásgeirsdóttir, M.Ed. og leikskólastjóri á Dalvík fjalla um meistaraverkefni sitt: „Þegar tungumálið kemur, þá kemur allt.“ Reynsla kvenna af Kosovo-albönskum uppruna af að búa á Íslandi. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 14 í Þingvallastræti 23 og hefst kl. 16:30. Allir eru velkomnir.
Markmið rannsóknarinnar var að auka skilning kennara, heilbrigðisstarfsmanna og annarra á reynslu kvenna af Kosovo-albönskum uppruna af að búa á Íslandi, tilfinningum þeirra, viðhorfum og aðstæðum.
Rannsóknin var eigindleg og leiddi m.a. í ljós mikilvægi þess, í aðlögun innflytjenda, að þeir nái valdi á ríkjandi tungumáli. Takmörkuð íslensku- og jafnvel enskukunnátta og lítil þekking á íslenskum aðstæðum getur skapað mikla vanlíðan og kvíða hjá innflytjendum, sem síðan getur leitt til einangrunar.
Leiðsögukennari var Jón Haukur Ingimundarson Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, ráðunautur Jórunn Elídóttir Háskólanum á Akureyri og prófdómari var Hanna Ragnarsdóttir Háskóla Íslands.
Skólaþróunarsvið hug- og félagsvísindadeildar HA