Tafir á opnun íþróttamiðstöðvar

Nú er ljóst að ekki tekst að opna íþróttamiðstöðina fyrr en eftir helgi, vonandi ekki seinna en um miðja næstu viku.


Þetta verður betur kynnt á heimasíðunni sem og í dreifibréfi eftir helgina. Orsakir þessa eru þær helstar að verið er að skipta um sand í öllum sandsíum við barnalaug og aðallaug, mikil vinna fer í að tæma tæp 5 tonn af sandi og fylla á í staðinn. Það sem tefur þó mest er að svokallaðar greiður, sem eru plaströr sem hleypa vatni í gegn um sig í síunum, eru ekki til á landinu og við verðum að fá þær til okkar að utan með hraði. Ef ekki er skipt um þessar greiður þá er vinnan með að skipta um sand fyrir bí.


Starfsfólk er einnig upptekið við að háþrýstiþvo laugarsvæði, yfirfara ræktina og nýja íþróttasalinn sem og að taka klefa og önnur opin rými í gegn. Farið verður yfir klórmál og aðstaða til að geyma klór endurnýjuð, það er verkefni að kröfu vinnueftirlits sem ekki verður komist hjá. Starfsmenn vinnuskóla eru að vinna í að þrífa gras og mosa milli hellna á útisvæðinu og aðstoða okkur við að koma aðstöðu á tjaldsvæðinu í gagnið. Málarar á vegum Sigurgeirs málara eru að mála húsið að utan og verður það mikil bragarbót. Júlíus múrari fer í að gera við skemmdir á flísum á laugarbökkum. Starfsmenn á vegum hitaveitunnar eru að ljúka við að tengja nýtt inntak við sundlaugina sem lagt var að henni í fyrrahaust. Magnús pípari Magnússon er þeim til halds og trausts í þessu sem og að aðstoða okkur við ýmis önnur verkefni.


Íþróttamiðstöðin í Ólafsfirði býður gesti okkar velkomna á meðan þessari vinnu stendur, frítt er í sund fyrir korthafa og þá íbúa í Dalvíkurbyggð sem hafa aðgang að okkar laug dags daglega. Það eina sem þarf að gera er að sækja miða í sundlaugina sem framvísa þarf í sundlauginni útfrá. Krakkarnir okkar þurfa einnig miða, nema ef foreldrar fara með þeim þá er nóg að þau fullorðnu hafi miða. Við hvetjum íbúana til að nýta sér þetta góða boð.


Minnt er á að kvennahlaupið fer fram á laugardaginn 4. júní í umsjón sundfélagsins, áhugasamar geta haft samband við Elínu Unnarsdóttur í síma 466-1679.

Með kveðju, Bjarni Gunnarsson, íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.