Á morgun er sumardagurinn fyrsti en það er fyrsti dagur í Hörpu sem er fyrstu af sex sumarmánuðum í gamla norræna tímatalinu. Sumardaginn fyrsta ber alltaf upp á fimmtudag í tímabilinu frá 19.-25. apríl það er fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl.
Sundlaug Dalvíkur verður opin frá kl. 10:00-16:00 og allir hvattir til að kíkja í laugina því að sund er sælustund.
Sundskáli Svarfdæla fagnar einnig 80 ára afmæli á sumardaginn fyrsta en stefnt er að því að halda upp á afmælið síðar.
Íslensk þjóðtrú segir að ef sumar og vetur frjósi saman boði það gott sumar, en með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfararnótt sumardagsins fyrsta.
Það er hvergi sagt berum orðum í lögum, en menn virðast áður hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins. Það sést á því að aldur manna var áður jafnan talinn í vetrum, og enn er svo um aldur húsdýra. Því var dagurinn haldinn hátíðlegur. Meðal annars er vitað um sumargjafir að minnsta kosti fjórum öldum áður en jólagjafir fóru að tíðkast. Þá var haldin matarveisla sem þótti ganga næst jólunum. Fyrsti dagur sumars var líka frídagur frá vinnu og börn fengu að fara á milli bæja til að leika sér við nágranna. Þá var hann einnig helgaður ungum stúlkum og nefndur yngismeyjadagur. Piltar máttu þá gefa í skyn hverja þeim leist á. Þetta var sambærilegt við bóndadaginn og konudaginn á fyrsta degi þorra og góu.
Lengi var messað og lesinn húslestur á sumardaginn fyrsta. Það þekktist hvergi annars staðar og þegar eftirlitsmenn danskra kirkjuyfirvalda uppgötvuðu þessa sérstöðu um miðja 18. öld létu þeir banna messur á þessum degi.
Eftir aldamótin 1900 gerðu ungmennafélögin sumardaginn fyrsta að helsta hátíðisdegi sínum og árið 1921 var hann gerður að stuðningsdegi fyrir börn í Reykjavík og eftir það oft nefndur barnadagurinn.(www.visindavefur.hi.is)