Styrkir til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka

Dalvíkurbyggð

Styrkir til greiðslu fasteignaskatts 2006

Auglýsing um reglur Dalvíkurbyggðar  um styrki til greiðslu fasteignaskatts til félaga og félagasamtaka skv. 2. mgr. 5.gr laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 og skv. 7. gr. reglugerðar um fasteignaskatt nr. 1160/2005.

Samkvæmt ofangreindum reglum er bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar  heimilt að veita styrki til greiðslu fasteignaskatts af fasteignum þar sem fram fer starfsemi sem ekki er rekin í ágóðaskyni, svo sem menningar-, íþrótta-, æskulýðs- og tómstundastarfsemi og mannúðarstörf.

Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar gilda reglurnar einnig fyrir árið 2006.

Rétt til styrks eiga félög og félagasamtök sem uppfylla eftirtalin skilyrði:

a)         eru fasteignaeigendur í Dalvíkurbyggð

b)         reka starfsemi sína í húsnæðinu með lögheimili í Dalvíkurbyggð, sbr. 1. gr. reglna þessara, með þeim undantekningum sem greinir í 3. gr. reglna þessara

c)         starfsemin skal vera mannúðar-, góðgerðar-, menningar-, íþrótta-, og/eða æskulýðsstarfsemi sem er rekin í almannaþágu eða í þágu æskulýðs

d)         um mannúðarsamtök gildir að góðgerðarstarfsemi verður að meginstefnu til að vera unnin í sjálfboðavinnu félagsmanna og ná út fyrir raðir þeirra, s.s. í formi styrkja, gjafa eða stuðnings fyrir almannaheill og samfélagið

e)         starfsemin má ekki vera rekin í ágóðaskyni en heimilt er að innheimta tímabundnar tekjur fyrir notkun húsnæðisins ef þær tekjur eru eingöngu nýttar til reksturs húsnæðisins, sbr. þó 3. gr. reglna þessara

Styrkur til greiðslu fasteignaskatts skal nema álögðum fasteignaskatti.

Nú eru fasteignir þær sem um ræðir í 1. og 2. gr. reglnannajafnframt notaðar til annars en að framan greinir, svo sem til veitinga- eða verslunarreksturs eða til íbúðar fyrir aðra, og skal þá leggja á og innheimta fasteignaskatt í réttu hlutfalli við slík afnot.

Sé húsnæðið leigt út  ótímabundið eða hluti þess í fastri útleigu skal styrkveiting takmarkast  hlutfallslega sem því svarar.

Ef um fleiri en einn eiganda er að ræða að eign, sem ekki uppfylla skilyrði reglna þessara, er veittur styrkur til þeirra sem uppfylla skilyrði reglnanna, í samræmi við eignarhluta þeirra.

Sækja skal um styrk til greiðslu fasteignaskatts á eyðublöðum sem liggja frammi í þjónustuveri Dalvíkurbyggðar, Ráðhúsi Dalvíkur, 1. hæð, fyrir 15. september 2006. Eyðublöðin má einnig nálgast á heimasíðu Dalvíkurbyggðar  www.dalvik.is.

Með umsókn um styrki skal fylgja ársreikningur sl. rekstrarárs, lög félagsins þar sem fram koma markmið þess og stutt greinargerð um starfsemina.

Reglurnar í heild sinni  og umsóknareyðublað má einnig nálgast á www.dalvik.is eða í þjónustuver bæjarskrifstofu á 1. hæð í Ráðhúsinu á Dalvík.