Í dag skrifuðu Svanfríður Inga Jónasdóttir bæjarstjóri fyrir hönd Dalvíkurbyggðar og Anton Örn Brynjarsson og Fanney Hauksdóttir fyrir hönd AVH ehf. undir hönnunarsamning vegna byggingar íþróttamiðstöðvar í Dalvíkurbyggð sem gerir ráð fyrir því að útboðsgögn verði tilbúin í lok júní í sumar. Um er að ræða íþróttasal, búningsaðstöðu og sameiginlegt anddyri með sundlaug á Dalvík. Hönnuðir eru AVH ehf. á Akureyri. Þessar framkvæmdir kalla á breytingar á núverandi anddyri sundlaugar, lóð og bílastæðum. Unnið er út frá því að íþróttahús og sundlaug vinni saman sem ein heild og er það lykillinn að viðráðanlegum rekstrarkostnaði eða litlu hærri en er í dag í sundlaug og eldra íþróttahúsi samanlagt. Auk þessa er gert ráð fyrir að í hluta hússins geti verið geymsla á tækjum og tólum sem tilheyra íþróttavöllunum. Gert er ráð fyrir allt að 2.000 m2 byggingu. Þorsteinn Björnsson bæjartæknifræðingur, Guðmundur St. Jónsson formaður byggingarnefndar íþróttahúss, Hildur Ösp Gylfadóttir sviðstjóri fræðslu- og menningasviðs og Haukur Haraldsson frá AVH ehf. sáu til þess allt færi samkvæmt áætlun.