Spurningaþátturinn Útsvar, spurningakeppni milli sveitarfélaga, hefst í kvöld á Ríkisstjónvarpinu. Samkvæmt vef Ríkisútvarpsins, http://www.ruv.is er Útsvar nýr þáttur þar sem 24 sveitarfélög keppa sín á milli í skemmtilegum spurningaleik. Þættirnir eru í beinni útsendingu á föstudagskvöldum frá 14. september. Í kvöld munu Kópavogbær og Hveragerðisbær etja kappi sín á milli en á næsta föstudagskvöld (21.sept) mun lið Dalvíkurbyggðar keppa á móti liði Grindavíkurbæjar.
Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni eru það þau Hjálmar Hjálmarsson, Katrín Ingvarsdóttir og Magni Óskarsson sem skipa lið Dalvíkurbyggðar í Spurningakeppni sveitarfélaganna sem sjónvarpið sýnir í haust. Ríkisútvarpið leitaði eftir ábendingum frá sveitarfélaginu um þátttakendur og lagði ríka áherslu að í liðinu væri einn þekktur einstaklingur. Umsjónarmenn eru Sigmar Guðmundsson og Þóra Arnórsdóttir. Dómari og spurningahöfundur er Ólafur B. Guðnason og útsendingu stjórnar Helgi Jóhannesson. Allir eru velkomnir í sjónvarpssal til að fylgjast með útsendingu og hvetja sitt lið til dáða. Áhorfendur þurfa að vera mættir í Útvarpshúsið, Efstaleiti 1, kl. 19.45. Útsending hefst strax eftir Kastljós.