Sorphirða í sumar

Eins og glöggir íbúar hafa kannski tekið eftir þá er tíundi bekkur Grunnskóla Dalvíkurbyggðar hættur að taka sorp frá heimilum. Nú hefur Vinnuskóli Dalvíkurbyggðar tekið við vinnunni og munu krakkarnir þar sjá um sorphirðuna eitthvað fram á sumarið. Ef einhverju er ábótavant er hægt að hringja í síma 460 4920 eða 466 1224.


Nú um mánaðarmótin júní-júlí verða breytingar á sorphirðu í Dalvíkurbyggð. Öllum heimilum verður boðin græn endurvinnslutunna auk þeirrar svörtu endurgjaldslaust og um leið verður notkun svörtu ruslapokanna hætt. Í grænu tunnuna á að fara allt endurvinnanlegt sorp eins og blöð og pappír, plast, málmar, bylgjupappi og fernur. Í þá svörtu fer óflokkað sorp eins og verið hefur.

Svarta tunnan mun eftirleiðis verða tæmd hálfsmánaðarlega og sú græna einu sinni í mánuði. Þetta er gert til þess að auka þjónustu við íbúa auk þess að minnka magn þess sorps sem fer til urðunar. Það sem einnig mun breytast er að nú verður sama tilhögun og sama þjónusta í öllu sveitarfélaginu, jafnt í þéttbýli sem og dreifbýli.


Þegar nær dregur mánaðarmótum verða ítarlegri upplýsingar um tilhögun sorphirðunnar og sorpflokkunina sendar á öll heimili sveitarfélagsins og auglýst á www.dalvik.is