Þann 24. janúar næstkomandi verða afhent, í þriðja sinn, verðlaun og viðurkenningar um nýsköpun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu. Alls bárust valnefnd 50 tilnefningar, þar af tvær úr Dalvíkurbyggð; Mín Dalvíkurbyggð og Söguskjóður. Nú er ljóst að Söguskjóður er eitt af þeim verkefnum sem eiga möguleika á að hljóta nýsköpunarverðlaunin 2014 og munu sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs, Hildur Ösp Gylfadóttir, og kennsluráðgjafi á fræðslu- og menningarsviði, Helga Björt Möller, verða viðstaddar afhendinguna.
Aðdragandi verkefnisins, Söguskjóður, er sá að á undanförnum árum hefur börnum af erlendum uppruna fjölgað mikið í skólum sveitarfélagsins. Skólarnir hafa því verið að þróa og endurmeta starfshætti sína með þarfir þessara barna í huga og einnig foreldra þeirra.
Áhugi var á að efla enn frekar almenn tengsl skóla við foreldra og ekki síst foreldra af erlendum uppruna en það er alþekkt að jákvæðni og stuðningur foreldra skiptir lykilmáli í skólagöngu barna. Kennsluráðgjafi kynnti sér foreldraverkefni sem unnið er að í Hollandi með góðum árangri. Í kjölfarið var ákveðið að fara af stað með foreldraverkefnið Söguskjóður í tveimur leikskólum sveitarfélagsins og síðar í einum grunnskólanum, að hluta til að hollenskri fyrirmynd. Verkefnið er ætlað öllum foreldrum sem eru tilbúnir í þátttöku í því, bæði íslenskum og erlendum en sérstök áhersla er á að auglýsa og kynna verkefnið vel erlendum foreldrum. Þróunarsjóður innflytjendamála styrkti verkefnið myndarlega.
Verkefnið hefur margþætt markmið:
• það eykur tengsl foreldra við leikskóla/grunnskóla og eflir öryggi foreldra í sambandi við starf skólanna
• það ýtir undir að foreldrar kynnist sín á milli
• það styður við íslenskukunnáttu erlendra foreldra
• það verða til góð málörvandi gögn í skólunum sem öllum foreldrum er síðar boðið að fá lánuð heim til að vinna með börnum sínum
• það ýtir undir bóklestur barna og skemmtilegar samverustundir barna og foreldra við lestur, leik og spil
Foreldrar eru fengnir til að koma inn í skólann og útbúa stórar skjóður í tengslum við barnabækur. Í hverri skjóðu þarf að vera barnabók, fræðibók í tengslum við barnabókina, 4 mismunandi spil í tengslum við bókina, leikföng eða búningar tengdir bókinni, leiðbeiningar um notkun skjóðunnar, sönglög tengd henni og fleira. Við gerð skjóðanna fá foreldrar ítarlegar leiðbeiningar og stuðning en fá jafnframt að hafa sitt að segja um innihald skjóðunnar og eru hvattir til að leyfa sköpunargáfunni að blómstra. Foreldrar vinna saman í hópum að gerð skjóðanna og innihalds þeirra en starfsfólk skólanna aðstoðar í vinnunni.
Foreldrar kynntust, kynntust leikskólanum betur og sumir lærðu frekari íslensku auk þess sem foreldrar leyfðu sköpunarþörfinni að njóta sín og höfðu gaman af. Foreldrar og börn eru svo byrjaðir að fá Söguskjóður lánaðar heim og mikil ánægja er með það, en skjóðurnar ýta undir gæðastundir foreldra og barna og njóta mikilla vinsælda. Jafnframt kynntust starfsmenn skólanna foreldrum betur og hefur það reynst farsælt fyrir leikskólastarf og aukið samskipti á öðrum sviðum, ísinn brotnaði.