Sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 2. apríl sl. skipulagsbreytingar eins og fram kemur hér á eftir.
Stofnuð er eigna-og framkvæmdadeild alls 3 stöðugildi, deildarstjóri og tveir undirmenn. Lögð eru niður störf umhverfisstjóra, aðstoðarmanns umhverfisstjóra, umsjónarmanns fasteigna og húsvarðar Dalvíkurskóla eða fjögur 100% stöðugildi. Auk þess er lagt niður sumarstarf forstöðumanns vinnuskóla, 33% stöðugildi á ársgrundvelli. Lögð er áhersla á að sem minnst rót verði á núverandi starfsmenn með því að bjóða þeim að óska eftir hæfnismati í hin nýju störf.
Með þessum skipulagsbreytingum er horft til þess að aðgerðin er fyrst og fremst gerð með það í huga að auka skilvirkni þjónustu við íbúana, stofnanir sveitarfélagsins og starfsmenn og eftirfylgni með verkefnum heldur en að hún sé fjárhagsleg hagræðing.
Þau störf sem eru lögð niður skarast inn á tvö svið, umhverfis-og tæknisvið og fræðslu-og menningarsvið. Yfirmenn þessara 4,33 starfa eru í dag einn sviðsstjóri og tveir forstöðumenn og við breytinguna verður því einn yfirmaður í stað þriggja.
Hin nýja eigna-og framkvæmdadeild er deild undir umhverfis-og tæknisviði og er deildarstjóri hennar undirmaður sviðsstjóra. Sem deildarstjóri er hann yfirmaður með mannaforráð og undir hann heyra á ársgrundvelli tveir almennir starfsmenn. Yfir sumarmánuði bætast við sumarstarfsmenn og starfsmenn vinnuskóla bæði nemendur og flokksstjórar. Yfirstjórn vinnuskólans flyst af íþrótta-og æskulýðsfulltrúa yfir á deildarstjóra eigna-og framkvæmdadeildar. Deildarstjóri ber ábyrgð á stjórnun og rekstri, þ.m.t. fjármálum, starfsmannamálum og gerð og eftirfylgni verkferla eigna- og framkvæmdadeildar. Ber ábyrgð á og skipuleggur þjónustuna með það að markmiði að þjónustan við íbúa og stofnanir sveitarfélagsins sé til fyrirmyndar. Ber ábyrgð á að opnum svæðum og eignum sveitarfélagsins sé viðhaldið ásamt öðrum verkum sem falla undir EF-deild.
Fyrirkomulag þjónustunnar við aðrar stofnanir sveitarfélagsins er lagt upp með þeim hætti að stofnanir senda inn verkbeiðnir á forstöðumann. Hann hefur ákveðinn tíma til að bregðast við. Ef málið er mikið forgangsmál er brugðist við því strax. Forstöðumaður metur hvort hann sendi starfsmenn deildarinnar í verkið eða hvort kallað er eftir aðkeyptri þjónustu til að sinna erindinu.
Við skipulag nýju eigna-og framkvæmdadeildarinnar er gengið út frá því að deildarstjóri geri heils árs vinnuskipulag fyrir þau verk innan sveitarfélagsins sem falla undir deildina. Þannig sé mannauðurinn og fjármagn nýtt til hins ítrasta.
Hlutverk eigna- og framkvæmdadeildar:
- Umsjón og eftirlit með umhverfismálum.
- Umsjón, eftirlit og samskipti við verktaka varðandi snjómokstur og hálkueyðingu, sorphirðu, sláttur og umhirðu á opnum svæðum og götusópun.
- Umsjón og eftirlit með hunda- og kattahaldi.
- Umsjón og eftirlit með efnisnámum.
- Jólaskreytingar, skreytingar á helgi- og hátíðisdögum, s.s. Fiskidagurinn mikli.
- Skipulagning og umsýsla leiksvæða, bæði við skóla og á opnum svæðum.
- Starfsemi Vinnuskóla.
- Viðhald fasteigna og eigna sveitarfélagsins, innan sem utan. Umsjón og framkvæmd viðhalds fasteigna og eigna sveitarfélagsins, innan sem utan. Deildin sinnir öllum tilfallandi viðhaldsverkefnum og viðhaldi samkvæmt viðhaldsáætlunum þar sem ekki er þörf á að kalla verktaka sérstaklega til.
- Viðhald og umhirða gatna, stíga og gangstétta.
- Viðhald og endurnýjun á skiltum.
- Frumkvæði verkefna ef stuðla að fegrun sveitarfélagsins.