Björgvin Björgvinsson og Kristinn Ingi Valsson frá Dalvíkurbyggð gerðu það gott á nýafstöðnu Skíðamóti Íslands á Ísafirði.
Björgvin varð þrefaldur íslandsmeistari, í svigi, stórsvigi og samanlögðu.
Kristinn Ingi varð Íslandsmeistari í samhliða svigi.
Mynd af þeim félögum við afhendingu íþróttamanns Dalvíkurbyggðar 2006
Eftirfarandi umfjöllun er fengin af snjor.is
Björgvin Björgvinsson frá Dalvík fagnaði sigri í stórsvigi karla á Skíðamóti Íslands á Ísafirði. Var samanlagður tími hans eftir tvær umferðir 2:01.95. Í öðru sæti var Árni Þorvaldsson, Ármanni, á tímanum 2:05.04 og þriðji var Gísli Rafn Guðmundsson, Ármanni, á tímanum 2:05,54. Svíarnir Fredrik Nordt og Andre Bjoerk náðu öðrum og þriðja besta tímanum, Nordt var á 2:02.34 og Bjoerk á 2:04.75. Alls voru 38 keppendur skráðir til leiks í stórsviginu og náðu 36 þeirra að ljúka keppni. Aðstæður voru frekar erfiðar vegna hvassviðris og skafrennings á köflum
Dalvíkingurinn Björgvin Björgvinsson fagnaði sigri í svigi á Skíðamóti Íslands á Ísafirði. Samanlagður tími hans eftir tvær umferðir var 1:32.22 mín. Í öðru sæti var Gísli Rafn Guðmundsson, Ármanni, á 1:35.11 mín og í þriðja sæti var Stefán Jón Sigurgeirsson frá Akureyri á tímanum 1:36.55. Alls voru 44 karlar sem hófu keppni og náðu 33 þeirra að ljúka henni.
Kristinn Ingi Valsson, Dalvík,Silja Hrönn Sigurðardóttir,Austra urðu í dag Íslandsmeistarar í samhliða svigi. Keppni hófst kl. 9.30 og var æsispennandi þrátt fyrir að veður væri erfitt á köflum. Í lokaviðureigninni mætti Silja Hrönn Kristrúnu Maríu Björnsdóttur frá Akureyri en Kristinn Ingi mætti Sigurgeir Halldórssyni frá Akureyri.