Skeiðsvatn

Skeiðsvatn

Sunnudaginn 28. júní voru vatnagöngur í gönguvikunni og gengið upp að Skeiðsvatni og Nykurtjörn.

Haldið frá Koti að Skeiðsvatni í rjómalogni og hlýju veðri, nítján göngumenn auk tveggja leiðsögumanna. Þrjú börn voru meðal göngufólks enda ganga að Skeiðsvatni tilvalin fjölskylduganga þar sem grónum götum er fylgt og leiðin stikuð. Á leiðinni er mikið blómaskrúð og því oft staldrað við til að dást að og greina; lindaskart og dýjahnappur við lindir, mosalyng og sauðamergur, smjörgras, hrafnaklukka og margar aðrar tegundir sem gleðja ásamt ilmi úr lyngi.
Skeiðsvatnið var spegilslétt og þar syntu svanahjón með börnin sín þrjú en á bakkanum hinu megin var alþjóðlegur hópur ungmenna á ferð. Sögur sagðar og rifjuð upp örnefni á meðan nestinu var gerð góð skil.


Haldið til baka eftir myndatöku og tók ferðin öll um tvo og hálfan tíma.

www.dalvik.is/gonguvika