Sjötta upplýsingabréf sveitarstjóra

Sjötta upplýsingabréf sveitarstjóra

Vegna samkomubanns og takmarkana stjórnvalda.

Kæru íbúar Dalvíkurbyggðar.

Covid-fréttir úr byggðarlaginu eru góðar og ljóst núna að ekki varð hópsmit út frá þessu eina staðfesta tilfelli sem komið hefur upp. Þeir sem lentu í sóttkví vegna smitsins eru að losna úr henni núna og heilsa þess smitaða er með ágætum, við erum afar þakklát fyrir það allt. Starfsfólk Kjörbúðarinnar fær hlýjar kveðjur. Með gleði í hjarta yfir því að allir úr sóttkví eru frískir og að koma til starfa á ný fylgja líka þakkir til afleysingafólksins sem stóð vaktina síðustu daga. Allt til fyrirmyndar á þeim bænum.

Á fundi aðgerðastjórnar Nl. eystra í dag kom fram að ástandið á svæðinu er heilt yfir gott og fækkun smitaðra í umdæminu. Hins vegar hefur verið aukning aftur í greiningu smita á landsvísu og líklegt að samkomur og veisluhöld páskanna séu að bíta fólk í hælana. Þetta er aðeins bakslag og ástæða til að ítreka að samkomubannið og fjarlægðarmörkin eru í fullu gildi til 4. maí. Við þurfum að halda áfram að takast á við þetta ástand með þolinmæði og æðruleysi. Hlýða öllum fyrirmælum almannavarna og sóttvarnalæknis og hafa hemil á okkur og okkar þótt erfitt sé.

Á fyrrgreindum fundi kom einnig fram að síðustu daga hefur verið aukning á bílaumferð á vegum og svo er hópasöfnun krakka að aukast. Það er eðlilegt að unga fólkinu okkar líði eins og lömbum að vori þegar sól hækkar á lofti og snjóalög dragast saman. En þetta er alvarlegt að mati sóttvarnateymis og við skulum öll hjálpast að til að stemma stigu við þessu í okkar byggðarlagi.

Í fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga hefur komið fram að meira er að bera á einmanaleika í samfélaginu sem er mjög eðlilegt þegar klippt er á venjuleg samskipti og mannamót. Félagsþjónustan okkar hringir reglulega í skjólstæðinga sína og fleiri sem eru einir. Það er þakkarvert og gott að vita að starfsmenn þar fylgjast vel með sínu fólki. Þá er rétt að benda á hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins en þar er t.d. hægt að óska eftir tímabundnum símavini, sjá nánar hér https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/hjalparsiminn-1717/hvad-gerum-vid-3 Ég vil hvetja alla sem finna til einsemdar að nýta sér þau úrræði sem eru í boði því margir vilja sannarlega hjálpa.

Hrós dagsins fer til Fiskidagsnefndarinnar sem sýndi enn einu sinni yfirburða kunnáttu sína og leiðtogahæfileika hvað varðar fjöldasamkomur og skipulagningu þeirra. Ákvörðun um að fresta Fiskideginum mikla um eitt ár vakti landsathygli og fékk mjög jákvæða umfjöllun sem er gott fyrir  hátíðina og byggðarlagið okkar. Í kjölfarið fylgdi tilhlökkun fyrir 20 ára afmæli hátíðarinnar í ágúst 2021. Við komum öll sterk inn að ári.

Íbúar Dalvíkurbyggðar fá líka eitt stórt hrós fyrir að vera þolinmóðir þótt þjónusta skerðist, glaðir á samfélagsmiðlum og samtaka í baráttunni.

Með bestu kveðju,

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri.