Sjómennska frá landnámi til vorra daga við utanverðan Eyjafjörð
Laugardaginn 25. mars kl 20:30 mun Karlakór Dalvíkur halda söngskemmtun í tengslum við Svarfdælskan mars, en áhugafólk um spilið Brús og þessa danshefð Svarfdælinga ýttu þessari skemmtun úr vör fyrir nokkrum árum. Þessi skemmtun verður að Rimum, Svarfaðardal.
Karlakór Dalvíkur mun á þessari skemmtun kynna nýja söngskrá sína sem byggist eingöngu á sönglögum tengdum sjómennsku og vinnslu sjávarfangs. Guðmundur Óli Gunnarsson, söngstjóri kórsins, hefur samið eða útsett rúman helming þeirra laga sem á dagskrá eru. Tónleikarnir fyrir hlé eru mótaðir af því æðruleysi og kjarki sem sjómenn fyrri tíma sýndu við störf sín og baráttu við óblíð náttúruöfl. Eins og segir í kvæði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, Nú sigla svörtu skipin, "og brimið ristir byrðinginn sem beittur jötna hnífur". Fyrir hlé verður svo endað á nýju lagi eftir Guðmund Óla, Blöndukútnum, við kvæði Jóhannesar úr Kötlum. Þar koma fram hinir einu sönnu Bakkabræður frá Bakka í Svarfaðardal og sína og sanna að ekki er hægt að bera sólina inn í bæinn með fötu.
Eftir hlé breytist tónninn aðeins og syngur kórinn tónlist eftir t.d. Oddgeir Kristjánsson við texta eftir Ása í Bæ ásamt nokkrum írskum þjóðlögum við texta eftir Jónas Árnason. Þessum hluta lýkur með sjómannadagslagi eftir Ára í Árgerði, en það tók þátt í keppni á síðasta ári um besta sjómannalag.
Þess ber einnig að geta að sagnaþulur verður Björn Daníelsson og mun hann segja sögur og sagnir um ýmislegt sem tengist efni þeirra sönglaga sem á dagskrá eru. Björn er hafsjór af fróðleik og kann frá ýmsu að segja.
Undirleikarar með kórnum verða þau Daníel Þorsteinsson, píanó, Indrek Pajus, kontrabassi, Þorleifur Jóhannsson, trommur, Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir, selló og Júlíus Baldursson, skeiðar. Einsöngvarar koma úr röðum kórmanna.