Hinn 13. maí sl. undirrituðu Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, Helena Karlsdóttir, forstöðumaður svæðisvinnumiðlunar á Akureyri og Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, samkomulag milli Dalvíkurbyggðar og Vinnumálastofnunar um náms- og starfsráðgjöf í Dalvíkurbyggð. Um er að ræða tímabundið verkefni sem er liður í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar vegna niðurskurðar þorskkvóta. Samkomulagið gildir til loka árs 2009.
Samkomulagið er um það að Dalvíkurbyggð ræður starfs- og námsráðgjafa tímabundinni ráðningu en Vinnumálastofnun greiðir Dalvíkurbyggð styrk á móti sem svarar 50% starfshlutfalli. Dalvíkurbyggð leggur starfsmanninum til vinnuaðstöðu. Náms- og starfsráðgjafi mun einnig sinna störfum fyrir Vinnumálastofnun og hefur sem slíkur aðgang að starfsfólki og þeim gögnum sem nauðsynleg kunna að vera vegna vinnu hans. Einnig getur starfsmaðurinn snúið sér til Vinnumálastofnunar vegna styrkja til einstakra verkefna sem hann mælir með vegna einstaklinga eða hópa.
Helstu verkefni náms- og starfsráðgjafa verða að styðja einstaklinga við atvinnuleit og að finna nám við hæfi eða önnur úrræði sem tiltæk eru til að styrkja einstaklinginn. Einnig að vinna með fyrirtækjum við endurnýjun starfa innan fyrirtækjanna, svo sem vegna tæknibreytinga, og þá bæði með endurmenntun og þjálfun starfsfólks og verður starfsmaðurinn stjórnendurm námsvers á Dalvík m.a. til ráðgjafar vegna námskeiða. Að auki er reiknað með að náms- og starfsráðgjafinn styðji einstaklinga og/eða fyrirtæki við að leita uppi störf án staðsetningar sem gætu hentað viðkomandi einstaklingi og/eða fyrirtæki.
Litið er á þetta sem tilraunaverkefni og eru vonir bundnar við það að með þessari starfsemi megi mæta að einhverju leyti þeirri fækkun starfa sem niðurskurður þorskkvóta hefur haft í för með sér í Dalvíkurbyggð.