Vinnuskóla Dalvíkurbyggðar sumarið 2012 er nú lokið en alls voru 60 starfsmenn þar við vinnu í sumar. Starfshópurinn samanstóð af garðyrkjustjóra, yfirflokkstjóra, 5 flokkstjórum, 7 manna eldri hóp sem starfaði undir stjórn garðyrkjustjóra og 48 unglingum fæddum á árunum 1996-1998. Unglingarnir voru við vinnu frá 6 vikum og upp í 10 vikur en flokkstjórar frá miðjum maí fram til loka ágúst.
Í upphafi fengu flokkstjórar og starfsmenn úr eldri hópi námskeið um einelti á vinnustað og hvernig mætti sporna við því, framkomu og samskipti við unglinga og fl. Allir starfsmenn fengu leiðsögn í réttri líkamsbeitingu frá sjúkraþjálfara.
Nemendum var skipt upp í fimm hópa sem hver hafði sitt sérsvið, tveir hópar störfuðu við lóðarslátt, einn hópur sá um slátt á opnum svæðum, einn hópur sinnti beðahreinsun á stærri svæðum og slætti á stofnanalóðum og einn hópur sá um ýmis verkefni á Árskógsströnd. Hver hópur samanstóð af flokkstjóra og starfsmönnum hans. Auk þess sáu allir hópar um ruslatínslu af götum byggðarlagsins, að draga út ruslatunnur á miðvikudagsmorgnum, að setja kurl á göngustíg upp í skógreit ásamt gróðursetningu.
Eldri hópurinn sem starfaði undir stjórn garðyrkjustjóra starfaði við margvísleg verkefni. Má þar helst nefna orfavinnu, þar sem slegið var með orfi í kringum jaðarsvæði bæjarins, lúpína var einnig sleginn ásamt kerfli víðsvegar um sveitarfélagið. Þá sá eldri hópurinn einnig um að hirða upp gras eftir sláttuhópana og koma því á losunarstað. Í ár sá eldri hópurinn einnig um að taka niður hluta af gamalli girðingu upp í Böggvisstaðafjalli.
Allt sumarið var lögð á það rík áhersla að krakkarnir lærðu rétt vinnubrögð, notuðu verkfærin rétt og bæru virðingu fyrir starfinu og reglum vinnuskólans. Með þessu voru þau undirbúin fyrir störf á almennum vinnumarkaði.
Vinnuskólanum lauk formlega föstudaginn 17. ágúst en nokkrir eldir starfsmenn og flokkstjórar unnu eitthvað lengur við frágang og fleira.
Skýrslu um starfsemi vinnuskólans má svo lesa í heild sinni á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.