Á undanförnum árum hefur sveitarfélagið selt um 30 íbúðir. Enn eru þó yfir 40 íbúðir í eigu þess. Langflestar þessara íbúða lentu í eigu sveitarfélagsins þegar það þurfti samkvæmt lögum að leysa til sín kaupleiguíbúðir sem einstaklingar höfðu stofnað til. Rekstur þessa kerfis (kallað félagslegar íbúðir) hefur sum árin verið mjög þungur fyrir Dalvíkurbyggð. Þetta eru líka mun fleiri íbúðir en sveitarfélagið þarf að eiga til að mæta skyldum sínum gagnvart þeim sem þurfa stuðning félagsmálayfirvalda varðandi húsnæði. Þá má benda á að með upptöku húsaleigubóta, og nú síðast sérstakra húsaleigubóta, er séð fyrir almennum stuðningi við þá sem eru á leigumarkaði, án tillits til þess hver er eigandi íbúðarinnar.
Vilji er til að selja fleiri íbúðir og hafa verið settar nýjar reglur um sölu þeirra. Liður í nýjum reglum er ákvæði þess efnis að ef leigjandi hefur búið í íbúð lengur en tvö ár hefur hann öðlast forkaupsrétt að íbúðinni, nema um sé að ræða íbúð sem sveitarfélagið þarf að nýta. Nú þegar hefur ein íbúð verið seld á þessum forsendum og fleiri íbúar eru að skoða þann möguleika að eignast þær íbúðir sem þeir búa í.
Það er ljóst að mikil spenna er á íbúðamarkaði í Dalvíkurbyggð og að bæði vantar íbúðir til leigu og sölu.